Skeifan

osu horseshoe

Ég og Jenný keyptum ársmiða á leiki OSU í Skeifunni (The Horse Shoe) á þessu ári. Við fórum á fyrsta leikinn í dag, en OSU valtaði yfir NorthWestern frá Illinios 58-7. Útsýnið úr sætunum myndaðist svona með símamyndavélinni minni.

Læra meira og meira

Nú þegar síðara árið í MALM-náminu mínu er að byrja, hef ég hafist handa við að sækja um að komast í post-graduate eins árs viðbótarrannsóknarnám til meistaragráðu. Námið er kallað Master of Sacred Theology (STM).
MALM-gráðan mín er á sviði sem er kallað Congregational Life and Leadership, en samsvarandi lína í STM-námi er kölluð Pastoral Leadership and Practice. Ef umsóknin mín verður samþykkt, mun ég byrja að taka kúrsa samhliða MALM náminu eftir áramót og fara á fullt veturinn 2008-2009. Þetta þýðir með öðrum orðum að ég verð í námi við Trinity Lutheran Seminary allt fram á vor 2009 hið minnsta ef umsóknin fer í gegn.

Knattspyrna og skýstrókahætta

Dagurinn í gær hófst á því að ég, Anna og Tómas fórum á Bob Evans og fengum okkur morgunmat, héldum svo í íþróttavöruverslun til að kaupa knattspyrnuútbúnað á Önnu og fórum síðan saman á knattspyrnuvellina við Easton þar sem Anna keppti með skólasystrum sínum í heiðskýru og frábæru veðri við eitthvert lið sem ég kann enginn skil á. Anna og stelpurnar unnu með glæsibrag 5-2, þar sem Anna var nálægt því að skora með flottu skoti frá jaðri vítateigsins. Eftir leikinn héldum við svo heim á leið þar sem Tómas lagði sig og ég og Anna fórum á Cassingham Carnival Festival, en foreldrafélagið í skólanum hennar Önnu stóð að dagskrá í skólanum með hoppköstulum og margskonar föndri og leikjum. Dagskránni átti að ljúka kl. 17, en þegar við vorum að huga að heimferð um 16:45, fóru skýstrókaviðvörunarbjöllurnar í gang í skólanum. Ég og Anna komum okkur fyrir á gangi skólans með þeim foreldrum sem ákváðu að hlýða ráðleggingum skólastjórans, en einhverjir hlupu einfaldlega með börnin sín út og heim. Eftir 15-20 mínútur með grátandi börnum og spenntum foreldrum kom lögreglukona sem hafði verið að sýna lögreglubíl á hátíðinni og tilkynnti að sést hefði hugsanlegur strókur í Hilliard sem er tæplega 15 mílur vestan við okkur og veðrið ferðaðist í austur á 30 mílna hraða á klst. Við þessi skilaboð ákváðu allir að yfirgefa skólann og flýta sér heim í skjól. Á leiðinni í bílinn vorum við stöðvuð af annarri lögreglu sem sagði okkur að koma okkur í skjól hið skjótasta, enda yfirvofandi hætta. Skýstróksviðvörunarvælan vældi enda stöðugt. Við komumst í bílinn og keyrðum heim á leið og á leiðinni mátti sjá lauf fjúka af trjám og himininn varð dekkri og dekkri. Við sáum einnig að lögreglubílar voru víða að reka skokkara inn í skjól. Þegar við keyrðum inn á bílastæðið heima, ákváðum við að hlaupa inn í skjól í kjallaranum og áttum eiginlega von á að Jenný og Tómas væru þegar farin niður. Það var þó ekki svo, Jenný og Tómas sátu hin rólegustu í sófanum í stofunni og horfðu á Friends á DVD. Ég og Anna reyndum að reka þau niður, skiptum yfir á fréttaútsendingu en öll dagskrá hafði verið rofin, enda ekki á hverjum degi sem skýstrókshætta er í milljón manna borg. Við vorum síðan niðri að kubba í réttar 30 mínútur þar til hættan leið hjá.
Ég fór í heimsókn til Steina í gærkvöldi og þá var aftur heiðskýr himinn, og frábært sumarveður hér í Columbus.

Hiti, raki og hægagangur

Ég og Tómas biðum með Önnu Laufeyju við skólann í morgun og gengum síðan sem leið lá heim með viðkomu í CVS, leið sem að öðru jöfnu tekur mig einan um 20 mínútur að labba. En í dag tók það klukkustund, við vorum svo sem ekki að flýta okkur og 26 stiga hitinn (verður 34 gráður þegar við sækjum Önnu) og rakinn var alveg að ganga frá okkur feðgum og síðan þurfti Tómas að láta halda á sér stundum, sitja í kerrunni stundum og ýta kerrunni stundum. Þegar við bættist að Tómas hafði margs konar hugmyndir um hvar pokinn úr CVS ætti að vera. Ég átti ýmist að halda á honum, hann átti að halda á honum, hann átti að vera í kerrunni meðan Tómas ýtti, eða Tómas vildi hafa hann við hlið sér meðan ég ýtti kerrunni með Tómasi í, þá tók þetta sinn tíma. Við hittum reyndar mömmu Juliu og spjölluðum við hana, en hún er ósátt við hversu mörg börn eru í hvorum bekk í 3. bekk og var að fá viðbrögð frá mér, ég hafði auðvitað ekki veitt því athygli. En hvað um það núna er klukkustund síðan við lögðum af stað heim og við erum heima.

Anna í skólanum

Nú er skólinn byrjaður aftur hjá Önnu Laufeyju. Það var gaman að sjá regnhlífaher streyma að skólanum hennar í morgun, en veðrið hér er vægast sagt vott. Ég fylgdi Önnu inn í stofu. Það var augljóst að stelpan er á heimavelli í skólanum og ég dró mig í hlé, eftir að hafa reynt að hjálpa henni til að panta mat og þegar ég fann að mín var ekki vænst. Börnunum er raðað á 4-7 manna borð og ég tók eftir að Peter, Abbie, Kate, Ryan S, Nick og Max eru á borði með Önnu, en hún sat líka við hliðina á Max í fyrra og kvartaði á stundum yfir því að hann væri alltaf að reyna segja Laufey en kynni það ekki.
Annars var Anna spennt, það virtist stemmning í bekknum og ljóst að hún á eftir að skemmta sér vel þennan vetur við að læra á blokkflautu í tónfræði, glíma við margföldun og deilingu í stærðfræði, vinna hvers kyns verkefni í samfélagsfræði og síðast en ekki síst vera í frímínútum. Annars fékk Casshingham Elementary vottun í júlí sem IB-skóli, sem er sama vottun og enska stúdentsprófið í MH hefur (reyndar fyrir annað skólastig 🙂 )

MBA innleiðing og skólinn

Í kvöld verður „orientation“ fyrir MBA námið hérna í Capital University en ég verð í einum MBA-kúrsi í haust, sem ber heitið Organisational Behavior. Það þýðir að ég þarf að grafa upp skyrtur og snyrtileg föt, enda MBA nemarnir væntanlega mun fínni í tauinu en guðfræðinemar sem margir klæða sig eins og þeir séu nýkomnir úr sumarbúðum. Annars líður heil vika í viðbót þangað til tímar hefjast í MBA-náminu, og síðan ein vika til þar til Trinity-kúrsarnir hefjast. Námskeiðin í Trinity að þessu sinni eru í fjölbreyttari kantinum. Ég verð í kúrsi um leiðtogahlutverk í safnaðarstarfi, ég sit námskeið hjá James Childs um kynlífssiðfræði, tek kúrs um fermingarstörf og loks mun ég sitja námskeið í Nýja testamentisfræðum.
Þá verð ég í skrifstofuvinnu hjá Healthy Congregations, en þar er boðið upp á fræðsluefni byggt á hagnýtingu Family System Theory í safnaðaruppbyggingu.

N-nana og kar

Síðustu daga hafa verið mjög rólegir hér í Bexley. Jenný vinnur reyndar af kappi og undirbýr sig fyrir QII próf í lok september. Ég og börnin erum hins vegar heima og bíðum eftir að skólar hefjist. Anna var reyndar á tennisnámskeiði í síðustu viku, sem lauk með pizzaveislu og fjölskyldudagskrá á föstudagskvöld, en Tómas hefur á hinn bóginn kynnst söguþræði Bílanna frá Disney, allvel, enda hefur orðið „Kar“ bæst í orðaforðann hans. Annars er hann byrjaður að segja örfá orð, þannig benti hann á Bjarma Kristjánsson í gær og sagði „drákur“ (þýð. strákur), hann notar orðið „stop“ þegar við gerum eitthvað sem honum mislíkar. Einnig hefur hann sérhæft sig í mismunandi útfærslum á orðinu „nei“. Systur sína kallar hann „n-ana“, hann veit að ég er „babbi“ og Jenný er „mama“. Hann biður um að fá að drekka, með að segja „gaga“ og í leikskólanum sagði hann víst reglulega „what’s that“.

Uppfært: Hann segir „úa“ fyrir búið, „lúla“ fyrir kúra, „soa“ fyrir sofa, „ball“ fyrir bolta, „sgo“ fyrir skó, „sdól“ fyrir stól, „burra“ er íslenska fyrir „kar“ eða bíl, „dúdú“ fyrir lest, „úd“ fyrir út, „bæbæ“ fyrir bless, „burluba“ fyrir bað eða sund, „hæhæ“ fyrir halló, „dad“ fyrir datt, „djónvarb“ fyrir sjónvarp (sem er mjög mikilvægt orð í BNA).

Á leið til Salt Lake City

Núna er ég búin að pakka í ferðatösku og búin að tékka mig inn í flug á netinu, vélin fer kl 8:10 í fyrramálið. Ég er á leiðinni á mína fyrstu tölfræði ráðstefnu. Um er að ræða Joint Statistical Meeting (Tölfræðilegur samstöðufundur?) Ameríska tölfræðifélagsins. Ráðstefnan er að þessu sinni haldin í Salt Lake City höfðuðborg Mormónafylkisins Utah. Það verða rúmlega tvö þúsund þáttakendur og tæplega 400 fyrirlestrar sem spanna flest svið tölfræðinnar. Ég er mjög spennt að fara, eina vandamálið er hvað það er erfitt að velja úr fyrirlestrum.

Ísland, Vatnaskógur, Washington, Six Flags America

Eftir rétt um 2 klst seinkun á fluginu frá Baltimore lentum við Anna um kl. 01:00 eftir miðnætti hér í Columbus í gærkvöldi. Við vorum snögg í gegnum flugstöðina og um borð í leigubíl sem keyrði okkur heim. Jenný tók á móti okkur kl. 1:30 við útidyrnar. Þar með lauk skemmtilegu ferðalagi okkar feðgina, þar sem komið var víða við. Halda áfram að lesa: Ísland, Vatnaskógur, Washington, Six Flags America

Vá!

Í dag eru 11 ár síðan ég giftist honum Ella mínum. Í tilefni dagsins fór ég með Tómas Inga í Dyragarðinn hér í Columbus. Elli og Anna Laufey eru hinsvegar í Vatnaskógi. Ég hringdi í skötuhjúin í kvöld og þegar ég sagði Önnu Laufeyju að foreldrar hennar eru búin að vera gift í 11 ár hrópaði hún: Vaá!

Til hamingju með daginn Elli minn!

Ps. Þó við hjónakornin séum ekki saman á brúðkaupsafmælinu þá mundum við bæði eftir deginum í þetta sinn – framför! 🙂