Hér í Bexleybæ er víst mikið óveður og varaði rafmagnsveitan við í gærkvöldi að hugsanlega gæti rafmagnið farið af nágrannabyggðum, jafnvel í nokkra daga. Rafmagnið er nú samt en hjá okkur, en hins vegar eru allir skólar lokaðir. Reyndar var Trinity Lutheran Seminary fyrsta menntastofnunin til að lýsa yfir lokun í dag en tilkynning þeirra kom um kl. 14 í gær. Síðan fylgdu stofnanir og fyrirtæki í mið-Ohio í kjölfarið og listinn lengdist stöðugt í gærkvöldi. Það var síðan í morgun að skólinn hennar Önnu og Ohio State University tilkynntu lokun hjá sér.
Við erum því heima í rólegheitunum og horfum á snjóflygsurnar svífa til jarðar. Snjórinn er samt ekki eina vandamálið, þar sem að alla vega tvisvar á síðustu 12 tímum hefur snjórinn breyst í frosna rigningu, sem hefur lagt klakabrynju yfir snjóinn. Þannig er víst glerhált klakalag neðst, síðan 2-3 tommur af snjó, síðan aftur rennisléttur klakki og síðan ofan á það 3-4 tommur af snjó og enn bætir í.
Tómas er því enn á náttfötunum, Anna í tölvunni, Jenný að læra og ég á vefnum.
Author: Halldór Guðmundsson
Tómas ælupjakkur
Þrátt fyrir að í dag sé ekki þriðjudagur ákvað Tómas að hefja daginn með stæl og æla yfir morgunmatinn sinn við fremur litla lukku föður síns. Að sjálfsögðu var maðurinn þrifinn hátt og lágt og kastað upp í rúm til mömmu sinnar. Þar reis hann fljótt á fætur og lýsti því yfir að hann væri ekki veikur og vildi fara í leikskólann. Hann reifst um þetta við foreldra sína þar til hann ældi í annað sinn. Þessari morgunógleði drengsins var síðan lokið um kl. 10, þegar ég hélt í skólann hennar Önnu til að tala við alla krakkana í 4. bekk um hvernig það væri að flytja á milli landa. Ég var reyndar ekki einn á ferð því Mrs. Petrov var þarna líka en hún kom til Ohio frá Sovétríkjunum fyrir réttum 18 árum síðan. Við ræddum við börnin í 50 mínútur eða þar til að þau þurftu að halda í hádegismat. Það var margt mjög áhugavert í framsögu Mrs. Petrov, m.a. um stöðu gyðinga í Sovétríkjunum og ekki síður um hvernig hún upplifði lífið sem unglingur síðustu ár Ráðstjórnarríkjanna.
—
Annars er gaman að segja frá því að við fengum rétt í þessu yfirlit frá leikskólanum hans Tómasar vegna leikskólagjalda á árinu 2008. Ég man að þegar við fluttum hingað reiknuðum við út að mánaðargjaldið í leikskólanum væri nokkuð hátt, eða 41.700 krónur á mánuði m.v. þáverandi gengi og að teknu tilliti til afsláttar sem er í boði fyrir stúdenta. Ég reiknaði út frá yfirlitinu í dag hvert leikskólagjaldið hefði verið á síðasta ári m.v. gengið sem var notað við útreikning námslánanna minna nú í janúar, skv. því kostar leikskólaplássið hans Tómasar 101.910 krónur á mánuði eða 1.222.920 krónur á ári að teknu tilliti til stúdentaafsláttarins sem við fáum enn (fullt gjald án nokkurs afsláttar er 125-157.000 krónur á mánuði).
Tómas í vetrarverkunum
Rétt í þessu sendi Jenný mér nokkrar myndir af Tómasi þar sem hann var að skafa af bílnum í morgun.
Lúxusdagur hjá Ella og Tómasi
Skólalokun
Á morgun stóð til að ég kæmi í skólann hennar Önnu og ræddi við krakkana í 4. bekk um hvernig það sé að flytja milli landa, en um þessar mundir eru 4. bekkingar í Cassingham að fjalla um innflytjendur í samfélagsfræði. Ég var búin að ræða við kennarann hennar Önnu um að nota PowerPoint glærur og sýna e.t.v. nokkrar myndir frá Íslandi.
Ég gekk frá skjalinu kl. 21:00 og líklega um 21:10 kom tilkynning frá Bexley Schools á sjónvarpsskjáinn um að allir skólar yrðu lokaðir á morgun vegna veðurs.
Engar skólalokanir og ritgerðarskil
Það rættist úr veðrinu í dag, eða öllu heldur það hefur ekki verið ofankoma. Hér er nefnilega 13 gráðu frost. Það dugði ekki til að loka skólanum hennar Önnu og miklu meira þarf til að loka OSU.
Annars hef ég setið við í dag og lagt lokahönd á 24 síðna ritgerð í Kirkjufræðum, sem mun að líkindum verða upphafskaflinn í meistararitgerðinni minni hér við Trinity. En í ritgerðinni leitast ég við að teikna upp kirkjumódel sem samræmist í fyrsta lagi boðskap kirkjunnar og hins vegar er nýtilegt í samtímanum. Ofan á þetta módel mun ég síðan byggja stjórnunarkenningar og/eða matskerfi.
Þessi fyrsti hluti telur einnig sem 3 einingar í sjálfstæðu námi í kenningalegri guðfræði. Nú er bara að sjá hvað kennaranum mínum finnst, en doktorsverkefnið hennar var einmitt á nákvæmlega þessu sama sviði. Þó nálganir okkar séu um margt ólíkar.
80 mínútur
Í dag voru Jenný og Tómas 80 mínútur á leiðinni úr leikskólanum og heim, leið sem tekur yfirleitt um 14 mínútur að keyra. Það snjóaði enda í dag, alls komu niður 15 cm af snjó hér í Columbus. Næstu daga er spáð allt að 32 stiga frosti þegar tekið er tillit til vindkælingar og alls óvíst hvort fólk fari í skóla næstu daga. En við fylgjumst spennt með skólalokunum í kvöld.
Tómas Ingi lasinn
Tómas Ingi virðist hafa tekið upp nýjan sið á nýju ári: að fá ælupest á þriðjudögum.
Fyrir viku síðan vaknaði hann ælandi og var alveg fárveikur, hélt engu niðri og mókti mest allan daginn milli þess sem hann kúgaðist. Hann hresstist þó með kvöldinu. Í morgun þegar við Tómas vorum komin út í bíl, ég búin að setja í bakkgírinn og var að fara að stíga á bensíngjöfina þá ældi Tómas yfir sig allan og bílstólinn. Ég er nú reyndar bara fengin að þetta gerðist ekki á hraðbrautinni á miðri leið í leikskólann!
Við mæðginin erum því heima í dag á meðan Elli hamast við ritgerðarskrif. Tómas Ingi virðist vera að hressast — hann náði þó að æla aftur yfir bílstólinn (!) sem stóð til þerris í stofunni eftir að Elli spúlaði hann allan í morgun.
Anna Laufey 10 ára
Já það hljómar kannski órtúlega en litla prinsessan okkar er 10 ára í dag. Við vöktum dömuna með afmælissöng og hún fékk afmælis-Mínu mús í Mínu músar safnið sitt. (Hún á nú 3 Mínu músar dúkkur) Svo fær hún eitthvað meira af pökkum seinna í dag.
Anna Laufey bauð fjórum vinum sínum héðan úr stúdentaíbúðunum í veislu eftir skóla í kvöld. Við erum búnar að gera jarðaberjatertu og rískökur og svo ætlar Elli að gera íslenskar pönnukökur – nammi namm!
Meiri jól
Rétt eftir hádegi kom pósturinn með þónokkuð magn af pósti, en þegar við héldum í DisneyWorld báðum við pósthúsið um að geyma allan póst þar til við kæmum aftur. Í sendingunni mátti sjá bréf frá bandarískum skattayfirvöldum um að þeir hefðu ekki greitt okkur Stimulus ávísun sem þeir lofuðu okkur í apríl, fyrirspurn frá Bexley skattinum hvers vegna þær hefðu ekki upplýsingar um skattgreiðslur Jennýjar á síðasta ári, höfnun frá Chase vegna umsóknar minnar um Amazon.com greiðslukort (á þeim forsendum að ég hefði aldrei átt í neinum viðskiptum í BNA – sem er víst rétt). Síðan var í póstinum sérhönnuð kort af Disneygörðunum sem áttu að hjálpa okkur við að skipuleggja ferðina, en komu of seint. Stór póstur til Jennýjar frá OSU, sem inniheldur líklega Meistaragráðuskírteinið hennar, ýmis tímarit voru í póstinum, nokkur tilboð um kaup á tímaritum og Andrésblað.
Síðast en ekki síst var nokkuð magn af jólakortum og einn jólakassi með jólapökkum. Það er því ljóst að í kvöld þegar fjölskyldan safnast saman eftir daginn, þá verða haldin litlu jól með jólakortalestri og jólapakkaopnun.
Disneymyndir
Heima
Við vöknuðum í morgun á Flórída kl 6:00. Komumst reyndar ekki á stað fyrr en rétt um kl 8:30. Þegar við náðum til Ohio um kl 23:10, ákváðum við að keyra síðustu 100 mínúturnar heim. Í stuttu máli 900 mílur á 16 klst með matar og pissustoppum og tvö börn í bílnum sem léku sér, sváfu og horfðu á bíómyndir allan tímann. Aðeins eitt pirringskast hjá krökkunum á allri leiðinni og það stóð mjög stutt.
Aftur í Georgíu
GPS tækið segir að áætluð heimkoma eftir fyrsta stopp þennan morgunin sé kl 21:57. Við eigum hins vegar eftir nokkur stopp enn í dag. Viðmiðunin núna er að fara alla leið heim í dag svo lengi sem áætluð heimkoma á tækinu fari ekki yfir fram yfir miðnætti.
Gleðilegt nýtt ár!
Við óskum fjölskyldu og vinum gleðilegs árs!
Við snæddum hátíðarkvöldverð í gærkvöldi með Öskubusku, prinsinum, stjúpunni og stjúpsystrunum. Við fórum svo aftur í Magic Kingdom og Anna Laufey hitti Mikka og Mínu mús en ég og Tómas Ingi fórum í kappaksturs bíla á meðan. Mína mús var svaka glöð að sjá Önnu Laufeyju í Mínu músar kjól. Við setjum inn myndir þegar við komum heim. Við vorum í Töfragarðinum fram yfir miðnætti og sáum magnaða flugeldasýningu. Hún byrjaði á að Skellibjalla flaug niður úr kastalanum og svo byrjuðu sprengingar allt í kringum okkur. Við vorum öll mjög ánægð með daginn og alveg svakalega þreytt eftir prógrammið síðustu daga.
Við sváfum fram eftir í morgun (til kl. 8), pökkuðum dótinu okkar í bílinn og fórum í Disney miðbæinn. Þar var verslað og strákarnir fóru í bíó. Við fórum á stað seinni part dags og erum nú komin á hótel í bænum Gainesville í Flórida. Enn eru um það bil 14 klst eftir af akstri.
Bangsímon
Eitt það mikilvægasta í Disney planinu er að mæta snemma. Þá gefst tækifæri til að fara í tæki og á sýningar áður en brjálæðið byrjar fyrir alvöru. Gestum á Disney hótelum er t.d. boðið að mæta 1 klst fyrir opnun í valda garða dag hvern, sem bónus og til að njóta sem flestra tækja. Í morgun lögðum við því af stað frá hótelinu rétt fyrir kl 7 og vorum komin inn í Magic Kingdom um kl 7:30, hálftíma fyrir almennan opnunartíma. Þegar við fórum í Brunch með Bangsímon kl 10:10 vorum við búin að dekka Fantasy Land næstum alveg og með miða kl 12:40 í ævintýraflug Péurs Pan. Jenný og börnin eru núna í 3-4 röð við sviðið við KASTALANN að horfa á sýningu með Mikka mús. Þegar henni lýkur og við höfum tekið flugið með Pétri ætlar Anna að hitta sögupersónur í tæpan klukkutíma áður en við tökum lest að aðalhliðinu og höldum aftur inn á hótel í nokkra klst hvíld meðan mesta traffíkin er í garðinum. Við förum síðan í hátíðarkvöldmat með prinsessum kl 19:30 og reynum að komast aftur í garðinn fyrir áramótaflugelda. Ef garðurinn verður fullur og við komumst ekki inn aftur sem er víst líklegt þá drögum við okkur í hlé og höldum fjörinu áfram kl 8:00 í fyrramálið.