Vorum úti að leika í kringum hádegi. Tókum myndir og myndbönd sem birtast e.t.v. síðar.
Category: 01 Fjölskyldan öll
Góð heimsókn
Síðustu daga höfum við haft góða gesti í heimsókn, þau Anton Orra, Ísabellu, Drífu og Heiðar. Við fórum í Chuck E. Cheese’s í afmæli Antons, prófuðum vatnaskemmtigarð, Jenný og Tómas tóku þau í dýragarðinn, við skoðuðum Franklin Park Conservatory, fórum fínt út að borða, ég og Heiðar skoðuðum flugvélasafn bandaríska hersins og við fórum í páskaeggjaleit á vegum Bexleybæjar svo fátt eitt sé talið.
Vorfrí hjá Ella og Önnu
Nú er farið að síga á seinni hluta meistaranámsins míns í leikmannafræðum, en útskrift er eftir 62 daga. Í síðustu viku lauk ég námskeiði um kirkjur í öðrum og þriðja heiminum og hvernig guðfræðiiðkun í Asíu, Suður-Ameríku og Afríku hefur áhrif, og mun hafa aukin áhrif á þróun kirkjunnar á komandi árum. Ég á því einungis eftir að ljúka tveimur námskeiðum, sem eru bæði hálfnuð. Annars vegar er ég að taka námskeið í guðfræðiskóla Methódista sem fjallar um breytingastjórnun í kirkjustarfi, þar sem við skoðum og ræðum strauma og stefnur í kirkjustarfi, ásamt því að skoða söfnuð og fjalla um hvernig og hvort sé hægt að þróa og bæta safnaðarstaf í samræmi við þær stefnur sem við höfum rætt. Hitt námskeiðið sem nú er hálfnað fjallar um sálgæslu og liggur áherslan á hlutverki sálgæslunar í kirkjulegu samhengi. Áhersla námskeiðsins er EKKI praktískar aðferðir heldur öllu fremur skilgreiningar á kirkjunni, þjónustu hennar og verkefni ásamt gagnrýnni umræðu um hvert hlutverk kirkjunnar sé þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu fólks.
En þetta er ekki forgangsverkefni í næstu viku, enda er ég í fríi ásamt Önnu fram á mánudaginn eftir viku. Reyndar þarf ég að fara í tíma á miðvikudaginn í breytingastjórnun, þar sem vorfríið í methódistaskólanum var í síðustu viku. En annars er þetta allt fremur rólegt núna.
Vorfrí í snjósköflum
Það er skrýið að vera í vorfríi þegar það eru stórir snjóskaflar útum allt. Snjórinn sem féll um helgina er hér sem sé ennþá þó að mikið hafi nú bráðnað og flestar götur eru orðnar auðar. Ég vona bara að við fáum ekki enn eitt kulda kastið þegar Drífa, Heiðar og börn koma í næstu viku. Okkur er farið að hlakka mikið til að fá Drífu og co. í heimsókn – og ekki skemmir fyrir að þau ætla að koma með páskaegg! (Er það ekki Drífa?)
Næstu daga ætla ég að hvíla lúin bein og sinna heimilsstörfum sem ekki komust að síðustu vikur vegna anna og veikinda. Anna Laufey hefur t.d. ekki fengið hreina sokka í nokkra daga – hún notaði mína í staðinn.
Skólablogg í lok vetrar
Nú er vetrarönnin loks á enda og ég byrja í vorfríi í dag. Þessi önn var ansi strembin, ég var í þremur kúrsum og í leskúrsi með leiðbeinandanum mínum auk kennslunnar. Halda áfram að lesa: Skólablogg í lok vetrar
ljósmyndir
Ég setti nokkrar nýjar myndir inn á Flickr, meðal annars þessa sem ég tók í rafmagnsleysi sem varð hér um daginn.
Sendur heim
Ég var rétt að koma mér fyrir á kaffihúsi í morgun, þegar ég tók eftir skilaboðum á símanum mínum. Leikskólinn hans Tómasar var að reyna að ná í okkur vegna hugsanlegrar augnsýkingar hjá Tómasi. Skilaboðin voru um að sækja hann tafarlaust. Ég hélt því af stað, hringdi í Jennýju og bað hana að tala við leikskólann og segja að ég væri á leiðinni og panta síðan tíma hjá lækni sem fyrst. Þetta gekk allt eftir og 65 mínútum eftir að leikskólinn lagði inn skilaboðin var Tómas kominn í skoðun hjá hjúkrunarfræðingi. Hann leyfði hjúkrunarfræðingnum ekki að skoða augað, svo hún fór eftir að hafa skráð niður tilskildar upplýsingar. Ég og Tómas lékum okkur svo að dóti í skoðunarherberginu og úr veskinu mínu í 25 mínútur þangað til læknir kom inn, leit í augun, sagði að þetta gæti hugsanlega sýking og lét okkur fá augndropaprufu sem ætti að duga fyrir 2 dropa í hvort auga kvölds og morgna í þrjá daga. Hún skrifaði svo upp á að Tómas væri ekki smitberi og mætti fara aftur í leikskólann á morgun.
Páskaegg komin í Whole Foods
Ég og Tómas fórum í Whole Foods Market í dag til að kaupa Skyr, rjóma, smjör og mjólk. Og ekki síður til að leita frétta af páskaeggjainnflutningi. Þegar við spurðum einn starfsmann um „Icelandic Easter Egg“ tengdi hann strax við einhverja vöru á lagernum sem á að setja upp í búðinni í kvöld eða á morgun, með fremur furðulegri gulri kanínu á toppnum. Annar starfsmaður reyndi að leiðrétta þann fyrsta og hélt því fram að þetta væri líklega frekar ungi en kanína, og spurðu mig hvort ég vissi hvort þeir væru að ræða rétta vöru. Ég hélt það nú, svo annar þeirra hljóp á bakvið og náði í 4 páskaegg nr. 2. Hann reyndar kom með einhverja athugasemd um ungann sem ég skyldi ekki, en alla vega – ég og Tómas fengum páskaeggin okkar.
Veikindum lokið að mestu
Nú eru öll börn komin á ról á þessu heimili, hitalaus og hamingjusöm. Reyndar fékk Anna eyrnabólgu og leið illa á miðvikudaginn, en við fórum til læknis á fimmtudaginn sem skoðaði í eyrað á henni í 20 sekúndur og ávísaði á sýklalyf sem hún tekur í eina viku (3 töflur í senn tvisvar á dag). Hann sagði að hún gæti samt vel verið í skólanum ef hún finndi ekki til.
Annars var síðasti kennsludagur Jennýjar í gær og lokavika framundan hjá henni. Ég á eftir tvær kennsluvikur fram að vorfríi, en Anna er í vorfríi á sama tíma og ég.
Brjálað veður
Í dag hefur veðurofsinn hér orðið meiri en nokkru sinni fyrr frá því við fluttum. Sönnun þess er einfaldlega að nú er laugardagur, og allar Kringlur (SuperMall) bæjarins eru lokaðar. Alvarlegra verður það varla í BNA.
Veðurbreytingar
Einu sinni hélt ég að það væri bara veðrið á Íslandi sem sveiflaðist fram og tilbaka eins og hendi væri veifað. En svo er víst ekki. Í gær var 20 stiga hiti og vor í lofti, heiðskýrt og sól. Þegar ég leit út í morgun var byrjað að rigna og c.a. 7-8 gráður og núna er 2 stiga hiti og líkur á snjókomu í kvöld.
GTM sr og jr
Ein af skemmtilegustu myndunum sem ég tók meðan við vorum á Íslandi um jólin, var þessi úrvalsmynd af Guðmundi Tómasi Magnússyni og barnabarninu Guðmundi Tómasi Magnússyni inn á Hrísateigi.
Veikindafréttir
Nú eru allir loksins að skríða saman eftir vikulöng veikindi. Tómas fór í leikskólann á föstudaginn, en hefur verið lítill bógur síðan, ekki veikur en daufur í dálkinn. Anna er á leiðinni á Tennisæfingu núna og það er í fyrsta skipti sem hún fer út síðan á þriðjudag. Á morgun byrja samræmd próf í skólanum hjá henni og ágætt að hún sé komin á ról fyrir þau.
Annars er fátt að frétta hér í Bexleybæ, Jenný á eftir eina viku af kennslu en prófavika vetrarannar hefst eftir 8 daga. Hún fer síðan væntanlega á fullu í rannsóknarvinnu eftir það, bæði sem aðstoðarmaður og einnig í doktorsverkefni. Ég er í rúmlega 70% námi núna og var að ljúka við umsókn um framhaldsnám til post-graduate gráðu sem kallast Sacred Theology Master (STM), þar sem ég mun leggja stund á kirkjufræði (ecclesiology) og leiðtogakenningar. Þetta er eins árs nám, en þar sem ég þarf að ljúka nokkrum forkúrsum mun það taka a.m.k. 1 1/2 ár að ljúka því, ef ekki 2 ár.
Tækniblogg
Eftir að hafa haldið utan um ljósmyndir á hrafnar.net með eigin uppsetning á Gallery2 myndvinnslukerfinu á eigin vefsvæði frá upphafi. hef ég gefist upp á því að viðhalda og uppfæra öryggisvandamál og fært allar myndir yfir á flickr.com. Þetta þýðir að sumar af eldri myndunum eru ekki lengur aðgengilegar á vefnum.
Til að skoða myndirnar er áfram smellt á hnappinn hér fyrir ofan.
Veikindi
Þessa dagana keppast fjölskyldumeðlimir um að skora sem hæst á Braun ThermoScan-mælinum okkar. Tómas náði þannig 39,4 á mánudaginn með þeim afleiðingum að hann lá í móki í sófanum í stofunni meira eða minna allan daginn, hann hefur rokkað nokkuð síðan en að mestu verið í 38 eitthvað. Anna var fremur slöpp í gær, en fór í skólann, en í dag hefur hún náð að slá metið hans Tómasar síðan á mánudaginn og náði 39,6 rétt í þessu, þrátt fyrir að hafa fengið tvær Tylenol (160mg) fyrir 20 mínútum. Ég og Jenný höfum ekki náð upp í 39 skalann enn, höfum haldið okkur á milli 37,7 og 38,5.
Það verður væntanlega ekki mikið um leikskóla hjá Tómasi í þessari viku, og ólíklegt að Anna fari í skólann heldur. Ég og Jenný reynum á hinn bóginn að komast í skólann þegar tækifæri gefst, þó Jenný hafi misst meira úr í þessari viku enn ég.