Jenný gekk með Tómasi í skólann fyrsta daginn. Anna var á gangbrautarvakt við skólann svo ég skutlaði henni og gekk síðan til móts við þau mæðgin.
Category: 01 Fjölskyldan öll
Skólinn hefst
Tómas hóf skólagöngu í Cassingham Elementary School á miðvikudaginn var, en hann er í það sem kallast hér í BNA, kindergarten, eða fimm ára bekkur. Fyrstu dagarnir hafa gengið rosavel. Hann hefur verið duglegur að ganga í skólann og heim aftur og þykir mjög gaman. Ekki skemmir heldur fyrir að hitta Önnu Laufeyju út í frímínútum.
Anna er hins vegar að byrja í 6. bekk sem er síðasti bekkurinn í Cassingham en á næsta ári fer árgangurinn hennar í Middle School. Anna er jafnspennt yfir skólanum, er loksins aftur með bestu vinkonu sinni Emmu í bekk, og í gær var hún búin með heimalærdóm fram til 15. september í einhverju fagi. Anna hækkar líka stöðugt og þegar ég mældi hana áðan, reyndist hún vera 161 cm og nálgast móður sína hratt.
Fylkisgarður við Alum Creek
Í gærkvöldi fórum við í tjaldútilegu í Alum Creek State Park, sem er rétt norðan við Columbus, rétt um 40 mínútna akstur frá húsinu okkar. Það er reyndar lítil úthverfasamfélög með risastórum húsum allt í kringum þjóðgarðinn (eða fylkisgarðinn), en við sáum svo sem nokkur bændabýli einnig.
Í morgun var síðan haldið á ströndina við Alum Creek (sem reyndar rennur fram hjá húsinu okkar, en þá er áin búin að renna í gegnum stórborg og ekki lengur jafn snyrtileg). Anna og Tómas léku sér í sandinum.
Úti í garði
Bílaverkstæði
Ég og Tómas sátum í rólegheitum á bílaverkstæðinu meðan bíllinn fór í gegnum 120.000 mílna skoðun.
Lokadagur á leikskólanum
Tómas fór í leikskólann í síðasta sinn í gær, þetta var þó ekki formleg útskrift enda munu sumir félaga hans halda áfram í leikskólanum og fara í „Kindergarten“ (ísl. 5 ára bekk) sem leikskólinn býður upp á.
Þar sem Bexleybær bíður nú í haust upp á heilsdags 5 ára bekk í fyrsta sinn, þá ákváðum við að það væri í alla staði hentugra fyrir okkur, að flytja hann í Cassingham Elementary þannig að hann yrði í skólanum með stóru systur. Við það bætist að ég (Elli) verð heima við stóran hluta sumars og því fannst okkur rétt að taka hann úr leikskólanum núna í maí og spara með því leikskólagjöld sumarsins.
Hvað um það, lokadagurinn var í gær og þegar við komum heim fékk Tómas „Spiderman“-hjól í útskriftargjöf. Við tókum nokkrar myndir af gleðinni.
Útskrift frá Trinity Lutheran Seminary
Fjölskyldan ásamt Marteini Lúther eftir úskrift Ella sem Master of Sacred Theology frá Trinity Lutheran Seminary í dag. Athöfnin fór vel fram og börnin hegðuðu sér með miklum sóma.
Elli ásamt Cheryl M. Peterson sem var lesari/prófdómari meistararitgerðarinnar og Emlyn A. Ott sem var leiðbeinandi vegna ritgerðarinnar og er auk þess framkvæmdastjóri Healthy Congregations þar sem Elli hefur unnið í hlutastarfi undanfarin ár.
Börnin hafa stækkað nokkuð frá því að ég útskrifaðist síðast, sumarið 2008 með meistarapróf í leikmannafræðum.
Anna á tónleikum
Í kvöld spilaði Anna Laufey með strengjasveit Bexley Schools á tónleikum í íþróttasal Bexley High School.
Ekki fleiri kennslustundir
Í dag sat ég í síðustu kennslustundinni minni í Trinity Lutheran Seminary og ef allt gengur að óskum mun ég útskrifast á laugardaginn 22. maí.
Ritgerðin mín er í yfirlestri hjá prófessornum mínum og ég mun að öllum líkindum ganga frá henni í endanlegri mynd núna um helgina. Þessi ritgerðaskrif hafa verið meira mál en ég gerði ráð fyrir, en viðfangsefni ritgerðarinnar liggja á mörkum trúfræði og starfsháttafræði, auk þess sem að ég leita í smiðju stjórnunarkenninga í viðskiptafræði til að hanna snið til árangursmælinga í kirkjustarfi.
Það að ritgerðin snertir mismunandi fræðisvið kallar á að málfar og orðanotkun sé samræmd, og greinileg, en það hefur ekki alltaf reynst auðvelt. Eins hef ég kynnst að áherslur í því hvað það er sem skiptir máli í guðfræði eru ekki endilega þær sömu á mismunandi fræðisviðum.
Það hefur líka reynt á að skrifa guðfræði fyrir prófessora sem deila ekki reynslu minni og skilningi á íslensku kirkjunni. Á stundum hef ég t.d. gert ráð fyrir einhverju sem ég er vanur frá Íslandi, sem er algjörlega framandi fyrir kennarana hér, þetta á svo sem líka við á hinn veginn, kennararnir gera ráð fyrir einhverju sem ég hef aldrei velt fyrir mér.
En hvað um það. Helgin fer að líkindum í lokafrágang og leiðréttingar og síðan lýkur náminu mínu formlega. Ég fæ síðan árs atvinnuleyfi í fyrsta lagi frá 1. júlí og líklega ekki fyrr en í ágúst.
—
Í öðrum fréttum er að við höfum ákveðið að Tómas Ingi hætti í leikskólanum hjá Ohio State núna í lok maí, og verði heima með mér og Önnu í sumar. Tómas byrjar síðan í Kindergarten (5 ára bekk) í Cassingham Elementary (skólinn hennar Önnu) í lok ágúst. Hann er orðinn fremur spenntur yfir því öllu, enda er Tómas duglegur að „gera heimalærdóm“ eins og stóra systir.
—
Jenný er á leið á ráðstefnu á Spáni og verður í burtu frá 2.-13. júní.
—
Helstu fréttir af Önnu eru þær að hún fékk gleraugu í fyrsta sinn nú í lok apríl, byrjun maí, hefur staðið sig með miklum sóma í skólanum og hefur verið að æfa á fiðlu með strengjasveit skólans síns.
Anna stækkar
Ekki margt að segja frá
Líklega vita flestir sem lesa hrafnar.net að Jenný og börnin eru á Íslandi um þessar mundir, meðan ég rembist við að skrifa lokaritgerð í STM-náminu mínu hér í BNA. Ég veitti því athygli rétt í þessu að mars 2010 er fyrsti mánuðurinn síðan júní 2005 þar sem það kom engin ný færsla á hrafnar.net. Ég ákvað því að skjóta inn færslu frá mér sem birtist í mars á trú.is, með vísunum á aðrar trú.is færslur frá mér um Haiti.
Ástæða þess er helst sú að flestar fréttir af okkur koma á Facebook síðurnar hjá mér og Jennýju, nú eða í einhverjum tilfellum á tvítið mitt (sem er reyndar yfirleitt á ensku). Til að bæta úr þessu að einhverju leiti hef ég sett upp tengingu hér til hliðar á þrjú síðustu tvít-inn mín.
Náð
Ég gekk inn í andyri Abiding Hope kirkjunnar í Littleton Colorado á laugardaginn var. Ég hafði flogið vestur til Colorado á föstudeginum til að hitta góða vini og sjá sýningu The Resurrection Dance Theater of Haiti. Ég hafði ætlað að sjá sýningu hópsins í Port au Prince, en vegna hamfaranna varð ekki af því. Halda áfram að lesa: Náð
Smá ferðayfirlit
Það er þónokkuð um ferðalög framundan hjá fjölskyldunni í Bexleybæ næstu vikur og mánuði.
Núna á laugardaginn ætlum við að keyra snemma morguns til Louisville í Kentucky til að hitta ræðismann Íslands. En við þurfum að fá vegabréfið hennar Önnu framlengt um ár. Jafnframt munum við nota tækifærið til að kjósa í Icesave kosningunum, ef þeim verður ekki aflýst fyrir helgi.
Næsta ferðalag verður svo 17. mars en þá heldur Jenný með Önnu og Tómas til Boston og síðan áfram til Íslands. En þau verða á Íslandi fram yfir páska.
Á meðan hyggst ég skrifa STM ritgerðina mína af miklu kappi og fara í eitt styttra ferðalag sjálfur.
Föstudagsmorgun 19. mars ætla ég að keyra sem leið liggur til Dayton í Ohio og fljúga þaðan til Denver á leið minni til Littleton. Þar mun ég vera fram á mánudagskvöld.
Ástæðan fyrir ferðalaginu til Littleton er að Resurrection Dance Theater frá Haiti verður þar með dagskrá á vegum Abiding Hope Lutheran Church og nokkur okkar sem vorum á Haiti ætlum að fara. En Resurrection Dance Theater var eitt af verkefnunum sem við ætluðum að sjá á Haiti. Þetta er að sjálfsögðu einnig frábært tækifæri til að hitta aftur þann hluta ferðahópsins sem býr í Littleton.
Tómas að hrekkjalómast
Sagan mín (á íslensku)
Myndin er af hótelherberginu mínu tveimur dögum eftir skjálftann. Ég mun breyta og bæta textann eftir því sem ég rifja upp atburðarásina og segi söguna oftar. Þetta hefur ekki verið lesið yfir með tilliti til stavsedningar.
Sagan hefst þriðjudaginn 12. janúar 2010, kl. 16:50. Ég stóð í bakgarði Florita hótelsins í Jacmel á Haiti eftir að hafa svarað umræðum á Facebook. Svarið var eitthvað á þessa leið (mín þýðing): Halda áfram að lesa: Sagan mín (á íslensku)