Anna mæld

Þegar Anna átti að fara í skólann í morgun var hún fremur slöpp, með hor og hósta svo ég ákvað að mæla barnið. Hún reyndist vera með 100,4 gráður á Fahrenheit eða 38 gráður á Celcíus og er því heima í dag. Mér skylst að takmarkið sé að horfa á allar Harry Potter myndirnar í einni lotu.

Ég hins vegar skrapp með Tómas í leikskólann og fór á Panera Bread til að lesa yfir handrit að ritgerð um samstarf mismunandi fagfólks í hjálparstéttum, sem ég þarf að skila á miðvikudaginn en ég tók námskeið í OSU um efnið nú í haust. Þegar ég kom heim var Anna með fremur mikil læti og hoppaði meðal annars á mig. Af þeim sökum ákvað ég að mæla hana aftur og nú reyndist hún vera 57 5/8 tommur eða 146,4 cm á hæð.

Leiðbeinandi í STM námi

Í dag fékk ég óformlegan tölvupóst um að skólinn minn hafi „valið“/samþykkt að Dr. Emlyn Ott verði leiðbeinandinn minn í rannsóknarverkefninu mínu. Dr. Ott er framkvæmdastjóri Healthy Congregations Inc. þar sem ég hef verið að vinna undanfarið ár auk þess að kenna kúrsinn Pastor as Leader, þar sem ég hef verið aðstoðarkennari. Þetta er í sjálfu sér ekki óvænt tíðindi en þýða hins vegar að ég get hafið skrif af krafti eftir áramót.

Vefbreytingar

Vegna vandræða með þjónustuaðilann sem hýsir fyrir mig m.a. hrafnar.net og skokassar.net (jól í skókassa), þá neyddist ég til að skipta um þjónustufyrirtæki nú í byrjun nóvember en gamla fyrirtækið var búið að tilkynna að hýsingin á skokassar.net væri að renna út, en buðu mér ekki upp á að endurnýja. Þetta þýðir að hrafnar.net verður næstu daga í einhverju lamasessi, enda er forgangsverkefni að koma jólum í skókassa í gang, en skiladagur er á laugardaginn.

Verk á sýningu

Líkt og síðasta haust hefur myndlistarverk eftir Önnu Laufey verið valið til sýningar á samsýningu skólanna í Bexley sem opnar á morgun. Reyndar er dagskrá morgundagsins á þann veg að okkur er ómögulegt að komast á opnunina þar sem ég verð í tíma um kvöldið, börnin verða í pössun hjá Steina og Kristin og Jenný verður í flugvél á leið til Colorado. Planið er því að fara síðar í vikunni með Önnu, annað hvort fyrir eða eftir skóla.

Í öðrum fréttum er að í nótt var fyrsta næturfrostið í Columbus á þessum vetri.

Sigruðum

Í kvöld fór fram úrslitaleikurinn í knattspyrnudeild Bexleybæjar á milli Bexley Gold og Bexley White. En eins og lesendum er kunnugt spila ég með Gold-liðinu og hef gert undanfarin rúm tvö ár. Leikurinn var mun jafnari en flestir áttu von á en við höfðum mætt hvíta liðinu nokkrum sinnum áður í haust og töpuðum t.d. fyrir þeim mjög illa fyrir tveimur vikum. 

Í kvöld var leikurinn mun jafnari og að loknum venjulegum leiktíma var staðan 0-0. Því var gripið til þess að framlengja leikinn í 2x5mín og notast við Golden Goal reglu þannig að liðið sem skoraði fyrst væri lýst sigurvegari. Ég byrjaði út af í framlengingunni en hún stóð í tæpar tvær mínútur. eða þar til Matt Lampke forseti bæjarstjórnar hér í Bexley, skorað glæsimark í skyndisókn fyrir liðið mitt. Ég átti reyndar að byrja inn á og Matt útaf, en við ákváðum að hann tæki fyrri vaktina sem borgaði sig að þessu sinni.

Ég er því stoltur Bexleybæjarmeistari í knattspyrnu haustið 2008.

Íslensk ýsa í kvöldmatinn

Það hefur verið nóg að gera þessa helgi. Anna Laufey tók sinn skammt af helgaríþróttum, keppti í fótbolta í gær og fór í annað sinn á sundnámskeiðið uppí OSU í dag. Ég fór í ræktina á meðan Anna Laufey fór í sund og nú er Elli í fótbolta. Þar að auki fóru Elli og Anna Laufey að horfa á OSU keppa við Purdue í Amerískum fótbolta í gær. Það mætti halda að við séum algerar íþróttafríkur, alveg heltekin af íþróttabölinu eins og amma myndi segja 😉 . Eftir svona helgi er gott að fá hollan mat og ég splæsti í íslenska ýsu til að hafa í matinn í kvöld. Þetta var lang dýrasti fiskurinn í fiskborðinu, rúmlega 12 dollarar á pundið sem reiknast um 2700 kr. á kílóið (!) miðað við gengið 100 kr á dollarann. En ég get þó allavega með góðri samvisku sagt að ég geri mitt til að styðja við Íslenska hagkerfið!

Fréttir af námsmönnum

Vegna frétta í fjölmiðlum af erfiðleikum námsmanna erlendis þá er rétt að tilkynna að strax fimmtudaginn 2. október byrjuðum við hjónin að gera ráðstafanir til að lágmarka áhrif ástandsins á Íslandi á okkar plön. Þann dag fórum við mjög nákvæmlega yfir fjárþörf okkar hér í BNA og millifærðum frá Íslandi nægt fjármagn til að dekka allan daglegan kostnað fram í miðjan janúar. Næstu mánuði munum við lifa eftir mjög vel skilgreindri fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir minna af pöntuðum pizzum og meira af frosnum pizzum 🙂 en áður. Halda áfram að lesa: Fréttir af námsmönnum

Einbeiting

Það er ekki auðvelt að einbeita sér að próflestri um spádómshefð í Júdeu og Ísrael á árabilinu 722-586 fyrir Kristsburð, þegar spádómar svartsýnustu manna eru að rætast um efnahagslífið á Íslandi. Reyndar lítur ástandið betur út á Main Street í dag en við óttuðumst í gær en samt sem áður er eitthvað við heimsendaboðskap Geirs, sem kemur í veg fyrir að ég geti einbeitt mér að heimsendaboðskap Amosar, Jeremía og Hósea. Halda áfram að lesa: Einbeiting

Kraftaverkamaðurinn Benni

Tómas hefur mjög mikla trú á Benedikt Þórissyni frænda sínum. Það kom kannski skýrast í ljós núna í kvöld, en börnin voru í pössun hjá Steina og Kristínu meðan ég og Jenný fórum í bíó á nýju Cohen-bræðra myndina. Myndin var ekki búin fyrr en rétt um 9. Það var orðið dimmt úti þegar við komum til Steina og Kristínar um kl. 9:20 til að sækja börnin. Þegar Tómas svo gekk út í bíl með okkur sagði hann eitthvað á þessa leið. „Það er komin nótt, Benni slökkti ljósið“.