Markpósturinn

SPRON vann í keppninni um markpóstinn. En fyrsta auglýsingabréfið til Tómasar Inga kom í póstinum í dag. Reyndar er bréfið stílað á Halldór Elías en þar er vakinn athygli á mikilvægi þess að börnum sé kennt að umgangast verðmæti og gildi sparnaðar strax frá fæðingu.
Nú er ég kannski svona andlega þenkjandi, en ég held að fyrst þurfum við að kenna honum að sofa á nóttinni og vaka á daginn. Síðan kannski kennum við honum að borða fasta fæðu og ef til vill hjálpa honum að skríða, jafnvel ganga áður en við förum í mikilvægi þess að spara peninga. Það er kannski munurinn á mér og Spronverjum.

6 vikna skoðun

Við fórum með Tómas Inga í 6 vikna skoðun á heilsugæslustöðina í morgun. Hann mældist 5245 gr og 59,3 cm. Hann hefur hoppað upp um eina línu á vaxtalínuritinu, en þyngd og lengd hefur þó alveg fylgst að. Hann er ennþá gulur en það hefur þó minnkað. Læknirinn kallaði þetta brjóstamjókurgulu sem á víst að vera meinlaus. En að öðru leyti er kappinn fullfrískur og stórmyndarlegur – við foreldrarnir þurftum þó ekki læknisálit til að segja okkur það :-).

Tómas Ingi

Eftir miklar vangaveltur og umræður fram og til baka er niðurstaðan komin. Drengurinn heitir Tómas Ingi. Nafnið er fengið með því að leita til afa í föðurætt (Guðmundur TÓMAS) og langafa í móðurætt (Ingólfur – INGI). Þessi leið var líka farin þegar valið var nafn á Önnu Laufeyju, þá reyndar til ömmu í móðurætt (ANNA Þorbjörg) og langömmu í föðurætt (LAUFEY).