Í dag gengum við frá bókunum fyrir Disney World um jólin. Við munum gista á Caribbean Beach Resort frá 28. desember-1. janúar og gerum ráð fyrir að vera alls 5 daga í Disneygörðunum, frá morgni 28. desember og fram undir kvöldmat 1. janúar. Ég ákvað einnig að ganga frá kvöldmat á Gamlárskvöld en planið er að vera í Magic Kingdom garðinum þann dag. Þrátt fyrir að aðeins sé tekið við pöntunum 180 daga fram í tímann og nú séu rétt um 140 dagar fram að áramótum þá var allt uppbókað í kvöldverð með Öskubusku í Disney kastalanum sjálfum og eins var ekkert laust í mat með Bangsímon í The Crystal Palace. Reyndar var ekki bara bókað í kvöldverðinn á Gamlársdag á þessum tveimur stöðum, það var heldur ekki hægt að mæta í morgunmat eða hádegismat.
Þjónustufulltrúinn sem ég talaði við og ég held að hljóti að hafa verið einn af jákvæðu fuglunum sem fljúga yfir hausunum á Disney prinsessum, var hins vegar mjög viljugur að aðstoða mig við að finna fínan matsölustað á Gamlársdag og bauð mér að bóka hlaðborð á Disney’s Grand Floridian Resort & Spa sem er víst dýrasta hótelið í Disneyheimi og lofaði mér því að Öskubuska og stjúpsysturnar myndu koma og spjalla við okkur þar. Þjónustufulltrúinn sagði mér einnig að máltíð á þessum veitingastað væri innifalinn í matarplaninu sem ég bókaði með Caribbean Beach hótelinu og aðgöngumiðunum í garðana.
Þá gaf þjónustufulltrúinn í skin að það væri betra fyrir okkur að bóka sem fyrst aðra kvöldverði í ferðinni sem allra fyrst, til að fá sæti á þeim veitingastöðum sem við óskum okkur. Ég ákvað samt að bíða með það, enda hef ég ekki hugmynd um hvaða veitingastaðir standa til boða.