Í dag sat ég í síðustu kennslustundinni minni í Trinity Lutheran Seminary og ef allt gengur að óskum mun ég útskrifast á laugardaginn 22. maí.
Ritgerðin mín er í yfirlestri hjá prófessornum mínum og ég mun að öllum líkindum ganga frá henni í endanlegri mynd núna um helgina. Þessi ritgerðaskrif hafa verið meira mál en ég gerði ráð fyrir, en viðfangsefni ritgerðarinnar liggja á mörkum trúfræði og starfsháttafræði, auk þess sem að ég leita í smiðju stjórnunarkenninga í viðskiptafræði til að hanna snið til árangursmælinga í kirkjustarfi.
Það að ritgerðin snertir mismunandi fræðisvið kallar á að málfar og orðanotkun sé samræmd, og greinileg, en það hefur ekki alltaf reynst auðvelt. Eins hef ég kynnst að áherslur í því hvað það er sem skiptir máli í guðfræði eru ekki endilega þær sömu á mismunandi fræðisviðum.
Það hefur líka reynt á að skrifa guðfræði fyrir prófessora sem deila ekki reynslu minni og skilningi á íslensku kirkjunni. Á stundum hef ég t.d. gert ráð fyrir einhverju sem ég er vanur frá Íslandi, sem er algjörlega framandi fyrir kennarana hér, þetta á svo sem líka við á hinn veginn, kennararnir gera ráð fyrir einhverju sem ég hef aldrei velt fyrir mér.
En hvað um það. Helgin fer að líkindum í lokafrágang og leiðréttingar og síðan lýkur náminu mínu formlega. Ég fæ síðan árs atvinnuleyfi í fyrsta lagi frá 1. júlí og líklega ekki fyrr en í ágúst.
—
Í öðrum fréttum er að við höfum ákveðið að Tómas Ingi hætti í leikskólanum hjá Ohio State núna í lok maí, og verði heima með mér og Önnu í sumar. Tómas byrjar síðan í Kindergarten (5 ára bekk) í Cassingham Elementary (skólinn hennar Önnu) í lok ágúst. Hann er orðinn fremur spenntur yfir því öllu, enda er Tómas duglegur að „gera heimalærdóm“ eins og stóra systir.
—
Jenný er á leið á ráðstefnu á Spáni og verður í burtu frá 2.-13. júní.
—
Helstu fréttir af Önnu eru þær að hún fékk gleraugu í fyrsta sinn nú í lok apríl, byrjun maí, hefur staðið sig með miklum sóma í skólanum og hefur verið að æfa á fiðlu með strengjasveit skólans síns.