Vegabréfsáritanir frágengnar

Nú höfum við fjölskyldan fengið grænt ljós hjá yfirvöldum í BNA um að flytja til landsins, vegabréf Tómasar, Jennýjar og Ella komu í gær, með samþykki, en vegabréfið hennar Önnu kom í dag. Nú er ekkert að vanbúnaði að hefja pökkun, sem reyndar hófst fyrir nokkrum dögum.

Tómas Ingi í Smáralind

869

Fjölskyldan fór í Smáralind í dag og á meðan Anna og Jenný fóru í Exit og Adam sátum við feðgar og slökuðum á.
Ég ákvað að taka nokkrar myndir á fína nýja símann minn og sjá hvernig það kæmi út.

Dótakassinn

Þegar við förum til BNA, þurfum við að endurnýja nokkuð af rafmagnstækjum og fjárfesta í öðrum sem hefur skort hingað til. Þannig er Canon ZR200 myndbandsupptökuvél á óskalistanum, Olympus Stylus 800, Canon PowerShot G6 eða Olympus SP-350 eru stafrænar myndavélar sem koma vonandi í stað fjögurra ára gömlu Canon Ixus vélarinnar minnar. Varðandi stærri hluti, þá verður líklega Ford Focus ZXW fyrir valinu ef keypt verður ný bifreið, alla vega finnst mér það í þessari viku.

Skírn Tómasar Inga

Tómas Ingi var skírður í almennri guðsþjónustu í dag í Grensáskirkju að viðstöddum fjölda manns. Þá var og Arnór Gauti skírður við sömu athöfn. Það var sr. Ólafur Jóhannsson sem annaðist skírnina, en þeir Guðmundur Tómas eldri og Brynjar Bragason voru skírnarvottar, en Brynjar hélt Tómasi jafnframt undir skírn.
Að lokinni guðsþjónustunni buðum við vinum og ættingjum til samsætis í safnaðarheimili Grensáskirkju og áttum þar góðar stundir. Vinir og ættingjar stóðu sig þó vart sem skyldi í áti, enda er mikið magn af tertum, brauði og kökum á heimili okkar þessa stundina.

Vinamót Víkings

808

Anna Laufey tók þátt í Vinamóti Víkings í handbolta nú um helgina. Anna stóð sig eins og hetja en mótið var fyrir stelpur í 7. flokki, fæddar 1996-1997.
Önnu Laufeyju og Aþenu vinkonu hennar var hins vegar boðið að koma og spila með þar sem það vantaði stelpur í lið. Í lok dags fengu síðan allir medalíu fyrir góða frammistöðu.

Markpósturinn

SPRON vann í keppninni um markpóstinn. En fyrsta auglýsingabréfið til Tómasar Inga kom í póstinum í dag. Reyndar er bréfið stílað á Halldór Elías en þar er vakinn athygli á mikilvægi þess að börnum sé kennt að umgangast verðmæti og gildi sparnaðar strax frá fæðingu.
Nú er ég kannski svona andlega þenkjandi, en ég held að fyrst þurfum við að kenna honum að sofa á nóttinni og vaka á daginn. Síðan kannski kennum við honum að borða fasta fæðu og ef til vill hjálpa honum að skríða, jafnvel ganga áður en við förum í mikilvægi þess að spara peninga. Það er kannski munurinn á mér og Spronverjum.

Tómas Andri hittir Tómas Inga

765

Í dag kom Tómas Andri í heimsókn með fjölskyldunni sinni, Bryndísi, Gísla Geir og Kristrúnu Lilju. Þeir nafnar Tómas Ingi og Tómas Andri náðu strax vel saman og þrátt fyrir að sá síðarnefndi hefði kippt sokknum af T. Inga, kom það ekki að sök. Hægt er að sjá myndir frá heimsókninni með því að smella á myndina sem fylgir færslunni.

Flugið staðfest

485

Í morgun gekk ég frá kaupum á flugmiðum fyrir alla fjölskylduna til Columbus Ohio. Við munum fljúga kl. 16:55, þann 26. desember, stöldrum við í Baltimore í þrjár klukkustundir og tuttugu mínútur áður en við fljúgum til Columbus. Þar er áætluð lending kl. 22:55. Þannig mun ferðalagið ekki taka nema um 6 klst :-).

Jafnframt gekk ég frá flugmiðum frá Baltimore til Íslands 28. júní 2006 og er Íslandskoma áætluð að morgni þess 29. Hvernig við hins vegar komumst frá Columbus til Baltimore er ófrágengið.

6 vikna skoðun

Við fórum með Tómas Inga í 6 vikna skoðun á heilsugæslustöðina í morgun. Hann mældist 5245 gr og 59,3 cm. Hann hefur hoppað upp um eina línu á vaxtalínuritinu, en þyngd og lengd hefur þó alveg fylgst að. Hann er ennþá gulur en það hefur þó minnkað. Læknirinn kallaði þetta brjóstamjókurgulu sem á víst að vera meinlaus. En að öðru leyti er kappinn fullfrískur og stórmyndarlegur – við foreldrarnir þurftum þó ekki læknisálit til að segja okkur það :-).

Kaffihúsaferð og heimsókn á Haðarstiginn

Það hefur verið mikið að gera hjá okkur þessa helgina. Anna Laufey fór í afmæli til Karenar Sifjar vinkonu sinnar á föstudaginn og skemmti sér konunglega. Í gær fór fjölskyldan í bíltúr og fjárfesti meðal annars í forláta leikteppi handa Tómasi Inga. Teppið er litríkt með alskyns furðudýrum og hringlum. Það spilar líka Mozart og dýrahljóð þegar sparkað er á réttan stað. Halda áfram að lesa: Kaffihúsaferð og heimsókn á Haðarstiginn