Vááá!!!
Sumir náðu ekki að klára pizzusneiðina sína eftir fjörugan dag í hollywood Studios.
Fantasmic!
Bílastunt, High School Musical 3 show, Indiana Jones með full size flugvél, matur með Playhouse Disney, skrúðganga, fleiri show og jarðskjálftahristingur, mjög þreytt og hamingjusamt fólk í fjórðu röð að bíða eftir Fantasmic sýningu Mikka Músar sem hefst eftir 46 mínútur. Síðan verður farið í hvíld. Meira Disneybrjálæði á morgun í Animal Kingdom.
Uploaded – 12288
Sandströnd og bensíneyðsla
Við komum að Ramada hótelinu þar sem við gistum í nótt kl 15:55 að staðartíma og höfum tekið það rólega síðan. Áður en við komum hingað stoppuðum við stutt á St Augustine strönd þar sem Anna skemmti sér konunglega við að hlaupa á sundfötunum út í Atlantshafið. Núna söfnum við kröftum til að takast á við morgundaginn, en þá færum við okkur yfir I-4 hraðbrautina á Disney-hótel og hefjum alsherjar Disney-æðis dagskrá sem mun standa eitthvað fram á næsta ár.
Fyrir áhugafólk um bensíneyðslu þá fylltum við á bílinn eftir 450 mílna akstur fyrr í dag. Alls settum við tæp 14 gallon á bílinn, sem gerir 32.1 mílu/gallon eða 7.32 L/100 km.
Þoka
Hér í Suður Karólína vöknuðu allir hressir og kátir eldsnemma. Við vorum komin af stað kl 7:48 að staðartíma og áttum þá um 300 mílur eftir til Orlando. Við gerum ráð fyrir að taka eitt langt strandstopp á leiðinni, ef/þegar þokunni sem er núna yfir öllu léttir.
Nú kl 8:15 komum við síðan til Georgíufylkis sem er síðasta fylkið sem við keyrum gegnum á leiðinni til Flórída.
Fyrsta næturstop
Eins og sagði í fyrri færslu gerði GPS tækið ráð fyrir að við kæmumst til Walterboro kl 18:48. Við hins vegar vissum vel að það gengi ekki eftir þar sem GPS tæki gera ekki ráð fyrir matar- og pissustoppum. Ferðin sóttist hins vegar mjög vel og um 20:30 keyrðum við framhjá afleggjaranum til Walterboro. Við ákváðum þar sem svo vel gekk að keyra ríflega 20 mínútur aukalega og erum nú á fremur þreyttu Best Western hóteli í Point South í Suður Karólínu. Á morgun stefnum við að því að koma til Daytona Beach á Flórída um hádegi en þangað er rétt ríflega 4 klst akstur. Við ætlum síðan að fara seinnipartinn á morgun síðustu 90 mínúturnar til Orlando.
Heimilislegt
Rétt í þessu keyrðum við inn í Suður Karólínu. Eins og oftsinnis áður er útvarpið stillt á NPR, að þessu sinni svæðisstöð fylkisins. Þar er nú spiluð upptaka af Enigma eftir Eldgar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Norður Karólína
Nú erum við föst í umferð utan við Charlotte. Rétt í þessu tókum við bensín í annað sinn eftir 399.4 mílna ferð. Nú kostaði áfyllingin $21.52 fyrir 13.4566 gallon. Bensíneyðslan hingað til er því 29.7 mílur/gallon. Áhugasamir geta breytt eyðslunni í evrópsku mælieininguna l/100km.
Komin til Virginíu
Ferðin gengur vel. Höfum stoppað tvisvar til að borða nesti. Börnin hafa verið mjög dugleg og horfa á DVD í aftursætinu. Það var frábært ferðaveður í Ohio en svo var eins og helt væri úr fötu í Vestur Virginíu. Nú erum við ný komin til Virginíu og þá loksins stytti upp.
Brottför
Kl 8:06 að staðartíma lögðum við af stað til fundar við Mikka og félaga. Við byrjuðum á að fara á bensínstöð og fylla tankinn. Við keyptum rúmlega 13.4 gallon á $2.68 með Giant Eagle afslætti. Nú er kl. 8:39 og GPS tækið segir að við verðum komin til Walterboro, SC kl. 18:48. Sú tímasetning á eftir að breytast.
Gleðileg jól!
Rétt í þessu var ég að velta fyrir mér að í ár er 10 aðfangadagur Önnu Laufeyjar og ein af fáum hefðum sem hún hefur náð að upplifa alltaf er að fá alltaf möndluna úr möndlugrautnum á diskinn sinn. Á þessum tíma hefur hún verið með foreldrum sínum á aðfangadag á Tjarnargötu (11 mán), á Öresundskollegiet (1 árs) Kambsvegi (2 og 3 ára), í Stóragerði (4 og 5 ára), í Eyktarhæð (6 ára), hér í Bexleybæ (7 ára), aftur í Eyktarhæð (8 ára) og loks nú í Bexleybæ (9 ára). Með öðrum orðum hún hefur aldrei haldið jól oftar en tvisvar á sama stað. Það eina sem er stöðugt fyrir utan möndluna er að hún er bæði með pabba og mömmu og síðustu fjögur ár, hefur Tómas Ingi slegist í hópinn. Þetta er alsendis ólíkt mínu uppeldi en ég hélt jól á sama hátt í tugi ára á sama stað með sama fólkinu.
En hvað um það, jólin eru að koma, börnin eru spennt, þó fyrirhuguð Disneyferð hafi þónokkur áhrif á spennustigið, og eftir nokkrar mínútur verður byrjað á aðgerð (e. operation) „Íslenskt lambakjöt í bláberjahjúp“.
Gleðileg jól öll sömul!
Kalt!!!!
Við hjónin sitjum núna og horfum á veðurfréttir, en hitastigið með vindkælingu er -28 gráður á celsíus (hitastigið er -16 gráður ef ekki er tekið tillit til vindsins). Það er byrjað að hríma inn á svalahurðinni og veðurfregnamennirnir voru að vara við að bílar færu hugsanlega ekki í gang í fyrramálið.
Útsof
Í morgun var ætlunin að fara í kirkju kl. 10:00, en í stað þess að stilla vekjaraklukku treystum við á að Tómas myndi vakna. Hann hins vegar ákvað að sofa út í morgun og rumskaði ekki fyrr en 9:45. Við höldum að hér sé um útsofsmet í 3ja ára flokki að ræða. Reyndar vaknaði Anna mun fyrr eða rétt um kl 8, en þar sem hún var ekki mjög spennt fyrir að fara til kirkju, ákvað hún að láta okkur sofa.
Fyrsta einkunn í hús
Í STM-náminu mínu eru gerðar mun ákveðnari kröfur um námsárangur en í MALM gráðunni sem ég lauk síðasta vor. Þannig er hefðin í skólanum mínum að einungis er notast við einkunnaskalann P(ass)-M(arginal)-F(ail) á öllum námsbrautum nema í STM-náminu þar sem við þurfum að taka öll námskeið til einkunnar. Þetta hefur nokkur áhrif á það hvernig ég nálgast kúrsa, enda leyfir P-M-F kerfið meiri áhættu í ritgerðarsmíð. Reyndar eru á einkunnablaðinu mínu í síðasta námi þrjár einkunnir sem falla ekki undir hefðbundið kerfi, en námskeiðin mín í Capital University og Methodist Theological School of Ohio voru bæði metin á A-B-C-D-F skala og eins fékk ég A í námskeiði í Global Church, í stað P af einhverjum ástæðum.
En burtséð frá því. Í dag fékk ég í tölvupósti frá kennaranum mínum í þverfaglega námskeiðinu um siðferðileg álitamál, sem ég tók í The Ohio State University, þar sem hann tilkynnti mér að hann væri búinn að ganga frá einkunninni minni og hún væri A. Þar sem þetta er fyrsta (og eina) einkunnin mín í STM-náminu er ég með hærri meðal einkunn í mínu framhaldsnámi en Jenný. Það mun þó líklega ekki standa mjög lengi, en er á meðan er.