Heimanám

Ég nefndi einhvern tímann við Jóhönnu Rósu kennarann hennar Önnu Laufeyjar í Hvassaleitisskóla að mér þætti meiri heimalærdómur í 1. bekk en ég hefði átt von á. Anna kom með lestrarblöð á hverjum degi og þurfti að reikna og skrifa vikulega í skriftarbók. Þegar leið að jólum bættist markmiðsbókin við. Þegar ég heyrði í foreldrum annarra 6 ára barna á Íslandi, virtist sem álagið væri óvenjumikið í Hvassó.
Hér í Cassingham Elementary er álagið þó allt annað og mikið meira. Í dag komu tvær lestrarbækur og gert ráð fyrir að Anna ynni myndskreytingar og skrift með annarri þeirra. Hún þurfti að klára blað um runur og raðir, fylla út blað með nöfnum dýranna í kínverska dýrahringnum og loks á hún að skila í fyrramálið plakati með upplýsingum um hátíðisdag á Íslandi, þar sem gert er ráð fyrir að börnin svari spurningum um tilgang, hvernig dagurinn fari fram, hverjir fagni honum, hvenær hann sé haldinn o.s.frv. Reyndar eru næstum tvær vikur síðan plakatið var sett fyrir. Anna þarf síðan að gera bekkjarsystkinum sínum grein fyrir verkefninu með þriggja mínútna fyrirlestri í næstu viku. Á föstudaginn fer Anna síðan í heimsókn á COSI-vísindasafnið í Columbus þar sem fyrsti bekkur fær fyrirlestur um mikilvægi vatns og mismunandi not þess og sér sýningu og tilraunir sem notast við vatn. Föstudaginn þar á eftir fara þau í heimsókn til BalletMet og fá fyrirlestur og kynningu á balletinum um Lísu í Undralandi sem BalletMet er að setja upp hér í Columbus. Á Valentínusardag fá börnin í Cassingham heimsókn frá dýragarðinum í Columbus og ekki má gleyma að í tengslum við Valentínusardaginn eiga öll börnin að vinna heima Valentínusarkort fyrir alla í bekknum, 21 kort alls fyrir hvern og einn. Þá fá börnin vikulega tvær bækur á bókasafninu til að lesa.
Það er kannski ekki nema von að flestar mæður hér í Bexley séu heimavinnandi, það virðist einfaldlega fullt starf að hafa barn í Cassingham Elementary og það þrátt fyrir að barnið sé enskumælandi, en það er Anna ekki enn.

2 thoughts on “Heimanám”

  1. Það er nú gott að Anna á heimavinnandi föður sem er mjög fær í föndri og slíku. Spurning að bjóða Bryndísi Erlu í heimsókn og láta hana rulla þessu upp.

  2. Það ætti að vera hægt að nota kallinn við föndur, eftir fimm ára æfingu í útlandinu, þegar hann loksins kemur heim. Síðast þegar ég sá Ella föndra þá endaði afraksturinn ókláraður út í horni 🙂

Lokað er á athugasemdir.