Já það er afmælistími þessa dagana. Þó minn afmælisdagur sé enn ekki búinn þá er ég hrædd um að Elli hafi þegar unnið keppnina um að gera ánægulegan afmælisdag fyrir maka sinn.
Í síðustu viku fór ég af stað til að kaupa afmælisgjöf handa Ella mínum. Ég var meira að segja með ágæta hugmynd. Elli getur ekki geymt klink í veskinu sínu svo það endar á ýmsum stöðum í íbúðinni eða í bílnum. Svo mér datt í hug að kaupa handa honum fallegt leðurveski og láta jafnvel grafa nafnið hans í. En í veskjaleiðangri mínum komst ég að því að karlmannsveski eru ekki með hólf fyrir klink. Líklega þufa menn sem eiga veski sem kosta 100 dollara ekki að geyma klinkið sitt :-).
Það fór því þannig að Elli fékk í afmælisgjöf ferð í Apple búðina þar sem keypt var auka minni í tölvuna hans. Við fórum reyndar svo út að borða á þann merkilega stað Mongolian Barbeque sem var mjög skemmtileg upplifun. Á þeim stað setur maður þann mat sem maður vill borða hráan í eina skál og hann er síðan steiktur á risa stórum steini á meðan maður horfir á. Mjög skemmtileg upplifun, allavega ef maður hefur ekki mjög miklar áhyggjur af hreinlæti…
Í gær þegar klukkan sló 7 hér í Ameríkunni þ.e. þegar 9. mars kom á Íslandi þá fékk ég fyrstu af mínum fimm pökkum sem Anna Laufey og Elli eru búin að pakka inn. Það var Harry Potter DVD – special edition sem kom út nú í vikunni. Ég nefndi það víst í síðustu viku að mig langaði í þennan disk og maðurinn minn reynir auðvitað að uppfylla allar mínar óskir. Svo fékk ég voða fallegt kort frá Önnu Laufeyju í morgun með afmælisóskum bæði á íslensku og ensku. Ég hlakka voða mikið til að koma heim og sjá hvað er í hinum pökkunum, en fyrst þarf ég að reyna að kenna nokkrum amerískum háskólastúdentum smá tölfræði.
Innilegar hamingjuóskir með afmælið til ykkar beggja.
Bestu kveðjur,
Ásta