Krakkasafnsferð

Við fjölskyldan lögðum snemma í morgun í langferð. Fyrsti viðkomustaður eftir þriggja klukkustunda akstur var Krakkasafnið í Pittsburgh (Children’s Museum of Pittsburgh). Þar eru þó ekki krakkar til sýnis, heldur er um að ræða vísinda- og leiksafn fyrir krakka. Börnin skemmtu sér konunglega, skvettu vatni í allar áttir, æfðu sig í pípulögnum, rugluðu jafnvægisskynið, fóru í völundarhús, prófuðu að skrifa með ljóspenna, skyldu skuggann sinn eftir á vegg og svo mætti lengi telja.
Þegar við höfðum dvalið í safninu í rétt tæpar 2,5 klst var komið að lokun og við héldum sem leið lá í IKEA. Ég var reyndar mest undrandi að Anna og Tómas fengu ekki sjálfkrafa afslátt enda fátt sænskara en að vera systkini og heita Anna og Tómas, nema ef vera skyldi að heita Anna og Tómas og borða sænskar kjötbollur á IKEA. En hvað um það, við keyptum hillur í kjallarann, viðbótarhirslur fyrir dót, fartölvuborð við sófa, skrifborðsljós, skrifstofustól fyrir mig og margs konar smádót, sem verður til mikillar gleði þegar það kemst í gagnið. Við yfirgáfum IKEA rétt um kl. 20:30, og ókum 180 mílna leið til Columbus, út úr Pennsylvaníuríki, yfir Vestur Virginíu og inn í Ohio. Við komum heim 10 mínútur yfir miðnætti með tvö sofandi börn og eina hálfsofandi konu og nú er komið að mér að fara í rúmið enda rúm klukkustund síðan við komum heim.