Aftur í BNA

Þegar þetta er skrifað er ég kominn aftur til BNA eftir rúmlega tveggja vikna dvöl á Íslandi, þar sem ég hitti fjölmargt skemmtilegt fólk og það sem ekki er síður um vert, fékk F2 vegabréfsáritun hjá bandaríska sendiráðinu. Það hljómar reyndar næstum fáránlegt en viðtalið sem ég þurfti að fara í tók varla 2 mínútur, en starfsmaður sendiráðsins spurði hvernig konunni miðaði í náminu, og hvort ég hefði ekki verið í námi í BNA sjálfur. Ég svaraði báðum spurningum fremur ítarlega og útskýrði að ég hefði ætlað mér að starfa á OPT eftir námið en ekki fundið vinnu, en ég hafði samt á tilfinningunni að starfsmanninum væri næstum sama um það, enda sagði konan eitthvað á þá leið að það væri nú þegar búið að samþykkja umsóknina.

Það var merkilegt að vera á Íslandi, það virðist sem afleiðingar hrunsins séu víða að koma fyrst fram núna, sér í lagi í kirkjunni. Mjög víða er búið að segja upp fólki með mikla reynslu og ráða ódýrari starfsmenn. Metnaðurinn víða felst í varnarbaráttu, tilraunum til að halda í horfinu án neinnar framtíðarsýnar. Það er um margt skiljanlegt enda erfitt í ári hjá kirkjunni á öllum sviðum, ekki bara hinu fjárhagslega.

Vegna upplifunar minnar af ástandinu hef ég ákveðið að hleypa af stað verkefni sem ég hef lengi gælt við, einhvers konar ráðgjafar-, samtals-, fræðslu- og rannsóknarvettvangi þar sem ég býð fram þjónustu mína til góðra verka í kirkjunni og á kristnum vettvangi á þeim sviðum sem ég hef sérþekkingu á. Ég kalla verkefnið að svo stöddu Vangaveltur um kirkju og kristni og hef fundið því stað á vefsvæðinu vangaveltur.net.