Afmælisveisla

Í dag héldum við upp á afmælið hennar Önnu Laufeyjar hér heima. Ég sótti Önnu Laufeyju og 6 bekkjarsystur hennar í skólann og fékk aðstoð mömmu Meredith við að keyra þær hingað heim. Við höfðum reyndar planað að ganga með hópinn, en þar sem það leit út fyrir hugsanlega rigningu, þá ákváðum við að keyra. Jenný tók á móti hópnum með „cupcakes“, jarðaberjatertu og heitu kakói. Við sungum afmælissönginn fyrir Önnu á ensku og táknmáli (en krakkarnir í Cassingham læra táknmál, þar sem í skólanum eru nokkur heyrnarlaus börn). Þá er rétt að geta þess að Emmy, ein af stelpunum söng afmælissönginn á hebresku og það var mjög magnað, enda ekki á hverjum degi sem hebreska heyrist á þessu heimili. Að þessu loknu var hugmyndin að fara í leiki. Það þróaðist aðeins öðruvísi en við gerðum ráð fyrir enda fullt af spennandi dóti á heimilinu í eigu Tómasar og Önnu. Það fór því svo að stelpurnar lékju sér sjálfstætt, en með reglulegu millibili brutum við upp stemmninguna með leikjum. Eftir mikinn hávaða og læti, „pinjada“, gjafaopnunarathöfn, „tískusýningu“ og „modelingcontest“ við Latabæjartónlist (sem var ekki á skipulagi foreldranna), hleyptum við stelpunum út á leikvöll meðan við biðum eftir pizzasendlinum. Pizzuáti lauk rétt fyrir partílok og ákváðum við að bjóða öllum að spila eina umferð í CARS-tölvuleiknum í nýju PS2 tölvu Önnu Laufeyjar. Það stóð enda á heima, þegar allar höfðu prófað að keppa einu sinni (tvær og tvær í senn) mættu foreldrarnir og tóku þær heim saddar og sáttar.

Þrátt fyrir að stelpurnar hafi allar verið kurteisar og jákvæðar, reyndi svo sannarlega á foreldranna. Við náðum að setja Tómas sem hafði sannarlega fengið sinn skerf af athygli í partíinu, í rúmið kl. 19:30 og fljótlega eftir það, sofnuðum ég og Jenný. Tómas hjalaði eitthvað lengur. Um kl. 21:30 náði ég að rífa mig á fætur og reka Önnu í rúmið en hún hafði gleymt sér algjörlega í umönnun litlu rafgæludýranna tveggja sem hún hafði fengið í afmælisgjöf frá bekkjarsystrum sínum. En hvað um það, nú er kl. 22:30, allir sofnaðir og ljóst að næstu dagar verða eitthvað rólegri en þessi var.

E.s. Ég gleymdi algjörlega að mynda partístemmninguna, enda vart tími til í öllu stuðinu.

One thought on “Afmælisveisla”

  1. Held að barnaafmæli séu alltaf eins sama hvar þau eru haldin í heiminum. Vona að Anna Laufey hafi átt góðan dag.
    Afmæliskveðjur
    Guðrún Laufey, Þórir og Benedikt

Lokað er á athugasemdir.