Það er frágengið að ég (Elli) verð að vinna fjórar vikur í Vatnaskógi í sumar. Þannig mun ég vera í skóginum 20.-26. júní, 4.-10. júlí, 18.-24. júlí og loks 29. júlí-7. ágúst. Ég kem til Íslands með börnin í einhvern tímann í vikunni fyrir 20. júní og ég geri ráð fyrir að við fljúgum aftur til BNA að morgni 8. ágúst.
Hugsanir í Bexleybæ
Anna Laufey spurði þar sem við horfðum á Villa og Sveppa á Latabæjarhátíðar-DVD: „Eru þessir ekki svona 30 ára? Þeir eru svolítið gamlir til að láta svona.“
Nokkrum mínútum síðar bætti hún við: „Mr. Griffin væri ekki glaður með svona hegðun.“ En Mr. Griffin er kennarinn hennar.
—
“There is no such thing as boy colors or girl colors,“ sagði Tómas 5 ára við systur sína fyrir nokkrum dögum, en í gær kvartaði hann síðan sáran yfir hvað sum Valentínusarkortin sem hann fékk frá bekkjarsystrum sínum væru „girly“ og hann vildi ekki eiga þau.
Gullkorn frá Tómasi
Ég var að spjalla við Tómas um bangsaklukkuna mína sem amma bjó til og gaf mér þegar ég var sex ára. Samtalið endaði var eitthvað á þessa leið:
Ég: Ég fékk klukkuna þegar ég var sex ára svo ég er búin að eiga hana í næstum 30 ár!
Tómas: Nei! I þrettán hundruð ár!
Gleðileg jól
Við óskum lesendum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Aftur í BNA
Þegar þetta er skrifað er ég kominn aftur til BNA eftir rúmlega tveggja vikna dvöl á Íslandi, þar sem ég hitti fjölmargt skemmtilegt fólk og það sem ekki er síður um vert, fékk F2 vegabréfsáritun hjá bandaríska sendiráðinu. Það hljómar reyndar næstum fáránlegt en viðtalið sem ég þurfti að fara í tók varla 2 mínútur, en starfsmaður sendiráðsins spurði hvernig konunni miðaði í náminu, og hvort ég hefði ekki verið í námi í BNA sjálfur. Ég svaraði báðum spurningum fremur ítarlega og útskýrði að ég hefði ætlað mér að starfa á OPT eftir námið en ekki fundið vinnu, en ég hafði samt á tilfinningunni að starfsmanninum væri næstum sama um það, enda sagði konan eitthvað á þá leið að það væri nú þegar búið að samþykkja umsóknina. Halda áfram að lesa: Aftur í BNA
Réttlaus
Þegar þessi færsla birtist, 26. október, er ég án réttarstöðu í Bandaríkjunum og rétt í þann mund að lenda á Toronto Pearson International Airport á leið til Íslands. Ég ákvað að taka saman á einn stað helstu upplýsingar um reynslu mína af landvistarreglum í BNA. Annars vegar fyrir sjálfan mig og hins vegar ef fjölskylda/vinir hefur áhuga á að setja sig inn í málið.
Þegar ég var nemi við Trinity Lutheran Seminary var ég með vegabréfsáritun sem heitir F-1. Slík áritun er gefin til erlendra nemenda við bandaríska skóla og byggir á tiltölulega einföldu ferli. Eftir að skólinn samþykkir nemanda, þá sendir skólinn nemandanum eyðublað sem heitir I-20, nemandinn tekur I-20 pappírana ásamt ýmsum öðrum gögnum í sendiráð BNA í heimalandi sínu og fær límmiða í vegabréfið.
Að námi loknu getur nemandi síðan fyllt út einfalt form, sent til stjórnvalda í BNA og fengið atvinnuleyfi til eins árs sem kallast OPT, en ég gerði það. Ég reyndar þurfti að fylla út formið 2-3 sinnum og endursenda það (enda flókið að fylla út rétt).
Það er ýmislegt merkilegt við OPT ferlið. Eitt sem er vert að nefna er að eftir að umsækjandi hefur sent in umsókn fyrir OPT og þar til hann/hún hefur fundið starf, er ekki gert ráð fyrir að viðkomandi ferðist frá Bandaríkjunum. Það að yfirgefa BNA áður en OPT-hafi hefur fengið starf getur verið túlkað af bandarískum stjórnvöldum sem ákvörðun um að draga umsókn um OPT til baka. Þetta merkti fyrir mig að ég gat ekki heimsótt Ísland frá því í lok febrúar og þangað til í dag, án þess að eiga á hættu að atvinnuleyfið mitt yrði afturkallað. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að krakkarnir komu ekki til Íslands í sumar, ég gat ekki farið með þau án þess að eiga á hættu að missa landvistar- og atvinnuleyfi. Ekki að það skipti máli núna, fyrst þetta fór svona svo sem.
26. júlí s.l. fékk ég síðan atvinnuleyfisskírteini með mynd af mér. Á skírteininu kemur skýrt fram að ég hef atvinnuleyfi í BNA frá 20. júlí 2010 og til 19. júlí 2011. Hins vegar var reglugerðum breytt í BNA 8. apríl 2008, á þann veg að ef handhafi OPT atvinnuleyfis er atvinnulaus í 90 daga, er atvinnuleyfið ógilt. Hér er rétt að nefna að ég gat ekki tekið hvaða starf sem er OPT atvinnuleyfið er mjög skilyrt og í mínu tilfelli þurfti ég að finna starf sem að
hjálpaði nemandanum að öðlast frekari reynslu á sviði safnaðarstarfs, starfi trúarhreyfinga og hlutverki leiðtoga í kirkjulegu samhengi, jafnframt því að tengja saman trúarlegar hefðir og guðfræðilega menntun. (þýtt af I-20 eyðublaðinu mínu)
Vinnan þurfti einnig að styðjast við menntun mína á meistarastigi. Ég sótti um níu störf á Columbus svæðinu, sem ég taldi að hentuðu mér vel, ég gæti lagt eitthvað gagnlegt fram og uppfylltu þessar kröfur. Ég gæti velt upp spurningum hvers vegna einstaklingar með minni menntun og styttri reynslu voru ítrekað ráðnir fram yfir mig, ég gæti talað um kirkjupólítík á bak við sumar ráðningarnar og kvartað undan virðingarleysi og óheiðarleika sem ég fann fyrir á sumum þeim stöðum þar sem ég sótti um (en alls ekki öllum, sumir unnu mjög faglega) en í raun skiptir það ekki mál. Staðreyndin er sú að ég fann ekki vinnustað sem hafði áhuga á að nýta sér hæfileika mína.
Svo þetta er staðan. Í dag er F-1 vegabréfsáritunin mín og atvinnuleyfið mitt fallið úr gildi. Ég vona að þetta sé þó ekki í síðasta skiptið sem ég verð í BNA. Konan mín klárar námið sitt við Ohio State University næsta vor og krakkarnir voru að hefja nýtt skólaár hér í Ohio. Ég fer á fund núna á fimmtudaginn í bandaríska sendiráðinu á Íslandi til að óska eftir vegabréfsáritun sem maki, svokallað F-2. Slík áritun gefur mér heimild til að dvelja með fjölskyldunni í BNA og ferðast um svo lengi sem konan mín er í námi. Hins vegar
er handhöfum F-2 áritunar ekki heimilt að starfa í BNA undir neinum kringumstæðum. Reglugerðir um áritanir kveða skýrt á um að handhafar F-2 áritunar, hafa ekki heimild til að stunda háskólanám eða taka námskeið sem gætu nýst til formlegrar prófgráðu. Handhafar F-2 áritunar geta þó tekið þátt í frístundastarfi og börn með F-2 áritun mega vera í grunnskólanámi. (þýtt af http://oie.osu.edu/international-students/f-2-and-j-2-dependents.html)
Þetta merkir að ég mætti spila knattspyrnu í BNA mér til ánægju sem handhafi F-2, en það er um það bil allt sem ég má. Það að spila sem vinstri miðherji í frístundastarfi er ekki mjög fjárhagslega gjöfult (og ef það væri það mætti ég það ekki), sem þýðir að þó það væri gaman að geta verið áfram í BNA, þá neyðist ég til að leita eftir vinnu á Íslandi.
Og þannig er það. Ég vona að þetta útskýri stöðuna í augnablikinu.
Íþróttafréttir af Grænu drekunum
Í dag fór Jenný með í fyrsta skipti að horfa á Grænu drekana spila. Leikurinn hjá Tómasarhóp byrjaði ekki vel, og áður en 5 mínútur voru liðnar var staðan orðin 0-4 fyrir bláa liðið. Þá allt í einu hruku Drekarnir í gang og röðuðu inn mörkum, sérstaklega var fyrsta markið hans Tómasar skemmtilegt, en hann leit á mömmu sína áður en hann skoraði til að vera viss um að hún væri að fylgjast með. Þrátt fyrir mikla markaskorun, en leikurinn endaði 9-5 fyrir drekunum, fór það ekki framhjá áhorfendum að síðasta snerting Tómasar fyrir framan markið minnti ítrekað á Braga Brynjarsson, en mörkin hefðu orðið miklu mun fleiri ef svo hefði ekki verið.
Nú er aðeins einn leikur eftir, kl. 9:00 á næsta laugardag, en þá munur Grænu Drekarnir mæta gula liðinu, en skv. óopinberum upplýsingum mínum er það óopinber úrslitaleikur mótsins. Síðan verður gert mótshlé fram á vor.
Jæja
Nú er útséð um að ég fái vinnu hér í BNA. En leyfi mitt til atvinnuleitar rennur út eftir nokkra daga. Það merkir jafnframt að ég þarf að yfirgefa BNA, þar sem núverandi vegabréfsáritun fellur þar með úr gildi. Ég mun því fljúga til Íslands gegnum Toronto í Kanada aðfararnótt miðvikudagsins 27. október og lenda í Keflavík kl. 6:25.
Ég verð á Íslandi í tvær vikur og tek m.a. tvö fermingarnámskeið í Vatnaskógi. Ég ætla að reyna að funda med fjölmörgu fólki um atvinnu og hitta fjölskylduna.
Ég flýg síðan aftur til BNA 10. nóvember ef allt gengur upp og fer inn í landið med vegabréfsáritun sem maki Jennýjar sem skólinn hennar gefur út, en slík áritun gefur ekki heimild til neinnar vinnu í BNA.
Viðbót: Við fengum staðfest hjá skólanum hennar Jennýjar í gær, að það er líkast til ekki fullnægjandi að fara einfaldlega yfir landamærin til Kanada til að breyta árituninni, ég þarf að fara í sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi til að fá nýja áritun.
Dagskráin á Íslandi er strax orðin nokkuð þéttskipuð en endilega finnið tíma til að bjóða mér í mat. 🙂
Leikhúsvinna og fiðlutímar
Undanfarnar færslur á hrafnar.net hafa að mestu verið tileinkaðar Tómasi enda svo sem mikið í gangi hjá drengnum. Það er svo sem ekki rólegt kringum Önnu heldur. Hún lauk nýverið við að skrifa skáldsögu ásamt Emmu vinkonu sinni sem þær hafa verið að vinna að í allt sumar.
Þá er Anna virk í leikhússtarfi Bexley skólanna, en þar verða settar upp tvær sýningar á haustmisseri, annars vegar Lísa í Undralandi og hins vegar verkið Davíð og Lísa. Anna er hluti af því sem er kallað „crew“ en þau sjá um allt baksviðs, búninga, sviðsmyndagerð, tæknimál og hvað annað sem tilfellur.
Anna er auk þess í strengjasveit skólans og byrjaði nú í haust í einkatímum á fiðlu hjá kennara sem flutti hingað á stúdentagarðanna í sumar.
Í tengslum við skólann þá hefur Anna tekið að sér að aðstoða við símavörslu og upplýsingar á skrifstofu skólans í matartímum og frímínútum nokkrar vikur í vetur, meðan starfsfólk skrifstofunnar er í mat.
Eins er Anna liðstjóri í umferðargæslu (e. Safety Patrol) á morgnana fyrir skóla næstum aðra hvora viku. Þannig er að fimmtubekkingar annast gangbrautarvörslu í upphafi og lok skóladags undir stjórn liðstjóra úr 6. bekk. Meðal verkefna liðstjórans er að halda fimmtubekkingunum við efnið, skrá niður bílnúmer og lit þeirra bifreiða sem fylgja ekki umferðarreglum (taka ólöglega beygjur, leggja við gulan kantstein eða of nálægt gatnamótum o.s.frv.) og koma listanum til umsjónarmanns gangbrautarvörslunnar. Anna sagði mér að fyrir nokkrum dögum hefði hún skráð niður þrjá bíla á einni vakt.
B liðið
Í fyrsta leik byrjaði Tómas í C liði þar sem hann var allt í öllu. Í síðustu viku var hann í A liðinu og það gekk öllu verr. Í dag spilaði hann síðan í B liðinu og það verður að segjast að loksins var hann að spila með og við krakka af sama getustigi. Reyndar endaði leikurinn 9-3 fyrir Green Dragons en það gaf ekki endilega rétta mynd af getumuninum. Myndir og myndbönd væntanleg seint í kvöld.
Tómas 5 ára
Við héldum upp á 5 ára afmæli Tómasar í gær. Bestu vinir hans af leikskólanum mættu í veisluna ásamt fjölskyldum sínum en vinirnir höfðu ekki hist allir saman síðan í maí. Það mikil stemmning.
Harkan eykst
Það gekk ekki alveg jafn vel í leik tvö hjá Grænu drekunum.
Tómas í knattspyrnu
Tómas spilaði sinn fyrsta knattspyrnuleik í dag með græna CESA-soccer liðinu. Það var reyndar smá vesen með að finna út hvaða liði hann ætti að tilheyra og við fengum það ekki staðfest fyrr en seint í gær, sem merkti að hann hafði ekki mætt á neina æfingu fyrir fyrsta leikinn.
Liðinu hans var skipt niður á þrjá velli og spilað þrjú og þrjú á lítil mörk. Þetta leit ekki neitt gífurlega vel út í fyrstu, Tómas sem hafði ekki mætt á neina æfingu og tvær stelpur sem virtust ekki mjög áhugasamar og varamaðurinn þeirra neitaði að vera með. Gula liðið var með þrjá varamenn og ákveðin þjálfara sem reyndi að skipa þeim á svæði á vellinum. Leikurinn byrjaði fremur hægt, þrír grænir krakkar og þrír gulir hlupu þangað sem blár boltinn var hverju sinni og spörkuðu í boltann fremur stefnulaust.
Eftir c.a. tvær mínútur ákvað Tómas síðan að taka leikinn í sínar hendur, náði boltanum sólaði í rólegheitunum alla leikmenn gula liðsins nokkrum sinnum, enda fór hann sér engu óðslega og gekk loksins með boltann inn í mark andstæðinganna. Hann fagnaði árangrinum nokkuð og uppskar mikið hrós enda staðan orðin 1-0. Tómas lét hins vegar ekki þar við sitja, en endurtók leikinn aftur og aftur þar til staðan var orðin líklega um 8-1 fyrir Tómasi og stelpunum tveimur, Þá fór þjálfari hins liðsins fram á það við dómarann að bæta við einum leikmanni í liðið sitt, enda fannst foreldrum gulaliðsmanna fremur leiðinlegt að horfa upp á börnin sín í fyrsta kappleiknum sínum, tapa með þessum hætti. Tómasi hins vegar munaði ekki mikið um að sóla fram hjá einum extra leikmanni og þegar staðan var 10-1, ákvað ég að biðja þjálfara Tómasar um að skipta Tómasi út af og notast við varamann úr græna liðinu sem var á öðrum velli. Við það jafnaðist leikurinn á upphaflega vellinum, en Tómas fékk tækifæri annars staðar.
Það var aðeins meiri mótstaða á nýja vellinum, en Tómas náði samt að setja mark sitt á þann völl einu sinni eða tvisvar, þær fáu mínútur sem hann spilaði þar. Reyndar þurfti dómarinn að stöðva leik einu sinni þar sem honum þótti Tómas helst til ákveðinn gagnvart liðsmanni gula liðsins sem lá eftir á grasinu, en Tómas sýndi mjög góða varnartakta, skýldi boltanum vel og náði ítrekað að stíga sóknarmenn út. Þá átti Tómas ágæta stoðsendingu á liðsfélaga sem skoraði eftir að Tómas hafði náð boltanum af sóknarmanni við hliðarlínu, með því að stíga milli hans og boltans og snúa sér snöggt við á punktinum.
Þá nefndi eitt foreldri nefndi sérstaklega við mig hvernig Tómas hefði hlaupið að félögum sínum í seinni leiknum og „high five-að“ þá þegar þeir skoruðu og sýnt þannig „great sportmanship og team spirit“ sem væri frekar óalgengt í 5-6 ára deildinni.
Alla vega, það er óhætt að segja að innkoma Tómasar á knattspyrnusenuna hafi verið fremur skemmtileg og hann hafi sýnt óvænta takta sem fram til þessa hafa að mestu verið óþekktir.
Mamma og Tómas
Jenný gekk með Tómasi í skólann fyrsta daginn. Anna var á gangbrautarvakt við skólann svo ég skutlaði henni og gekk síðan til móts við þau mæðgin.
Skólinn hefst
Tómas hóf skólagöngu í Cassingham Elementary School á miðvikudaginn var, en hann er í það sem kallast hér í BNA, kindergarten, eða fimm ára bekkur. Fyrstu dagarnir hafa gengið rosavel. Hann hefur verið duglegur að ganga í skólann og heim aftur og þykir mjög gaman. Ekki skemmir heldur fyrir að hitta Önnu Laufeyju út í frímínútum.
Anna er hins vegar að byrja í 6. bekk sem er síðasti bekkurinn í Cassingham en á næsta ári fer árgangurinn hennar í Middle School. Anna er jafnspennt yfir skólanum, er loksins aftur með bestu vinkonu sinni Emmu í bekk, og í gær var hún búin með heimalærdóm fram til 15. september í einhverju fagi. Anna hækkar líka stöðugt og þegar ég mældi hana áðan, reyndist hún vera 161 cm og nálgast móður sína hratt.