Haustið og framtíðin

Nú er fjölskyldan í Bexleybæ loksins búin að teikna upp næstu skref og ganga frá fjölmörgum lausum endum varðandi verkefni næstu ára. Eins og margir vita hefur Jenný fengið Post Doc stöðu til tveggja ára í Norður-Karólínufylki hjá Duke University og SAMSI sem er rannsóknarstofnun rekin í samvinnu nokkurra háskóla í Norður-Karólínu. Þar gefst henni frábært tækifæri til að vinna með sumum af fremstu sérfræðingum heims á sínu sviði. Svæðið þar sem SAMSI er til húsa er kallað rannsóknarþríhyrningurinn (Research Triangle Park) en þríhyrningur markast af NC State University í Raleigh, University of North Carolina í Chapel Hill og Duke University í Durham. Allar þessar þrjár borgir renna saman og í miðju svæðisins er hinn áðurnefndi Research Triangle Park.

Við höfum leigt íbúð í bænum Chapel Hill, rétt um 20 mínútna akstur frá skrifstofum SAMSI, en Chapel Hill varð fyrir valinu þar sem almenningsgrunnskólar í bænum þykja allir mjög góðir. Þannig er leiguverð í Chapel Hill þó nokkuð hærra en í borgunum í kring vegna skólanna. Anna verður í 7. bekk í miðskóla (middle school) en Tómas verður í fyrsta bekk í grunnskóla (elementary school). Það er athyglisvert að skólaárið er mismunandi eftir fylkjum. Þannig byrjaði Tómas í Kindergarten í Ohio þetta skólaár, þar sem kindergarten 2010-2011 var fyrir börn fædd milli 1. október 2004-30. september 2005. Skólaárið í Norður-Karólínu miðar hins vegar við 1. september, þannig að börn í fyrsta bekk á komandi skólaári eru fædd á milli 1. september 2004-31. ágúst 2005. Þar sem Tómas hefur lokið kindergarten endar hann „ári á undan“ í skólakerfinu í Norður-Karólínu.

Fjölskyldan mun flytja til Norður-Karólínu í kringum 15. ágúst. Við höfum pantað gámavagn fyrir dótið okkar sem kemur 12. ágúst til Bexleybæjar. Við munum tæma íbúðina okkar þá helgi. Gámavagninn verður sóttur 15. ágúst og kemur til Chapel Hill 17. ágúst.

Áður en þetta gerist allt fer ég (Elli) með börnin til Íslands 15. júní og við verðum þar fram til 8. ágúst, meðan Jenný keppist við að klára doktorsritgerðina sína í Bexleybæ og sækir ráðstefnu í Miami á Flórída. Á Íslandi munum ég vinna í Vatnaskógi, Tómas fara á skáta- og sundnámskeið og Anna gera margt spennandi.

En aftur til Chapel Hill. Börnin byrja í skólanum 25. ágúst. Helgina á eftir stefnir Jenný að því að útskriftast frá The Ohio State og við erum að skoða hvort og hvernig við getum mætt í útskriftina. Strax að útskrift lokinni verður Jenný á þriggja daga ráðstefnu í Kaliforníu á vegum nýju vinnunnar og mætir síðan formlega til vinnu 1. september í Norður-Karólínufylki. Vonin er að í kjölfarið hægist á hjá Jennýju og börnunum og lífið fari í fastari skorður.

Ég (Elli) hef hins vegar fengið starf sem æskulýðsfulltrúi hjá KFUM og KFUK á Íslandi frá og með næsta hausti. Ég mun því fljúga frá Norður-Karólínu fyrir/um miðjan september og mæta galvaskur til leiks í KFUM og KFUK húsið við Holtaveg.

Það að lifa í tveimur löndum, tveimur heimsálfum í tvö ár verður sjálfsagt ekki auðvelt. Hins vegar virðist þetta vera farsælasta leiðin fyrir fjölskylduna að svo stöddu. Ég (Elli) hef litla/enga möguleika á að fá atvinnuleyfi í BNA og ekki auðvelt fyrir Jennýju að fá vinnu við hæfi á Íslandi.

Á Holtaveginum mun ég verða hluti af flottu teymi fólks sem mun halda áfram sem fyrr að móta framtíð kristilegs æskulýðsstarfs á Íslandi. Starfið hjá KFUM og KFUK gerir ráð fyrir fastri viðveru á skrifstofu, en um leið fer hluti vinnutímans í verkefni á kvöldin og um helgar. Þannig myndast vonandi svigrúm til að taka sér langa helgi öðru hvoru. Markmiðið er að fljúga tæplega mánaðarlega til fjölskyldunnar og dvelja í nokkra daga. Þá geri ég ráð fyrir að hafa svigrúm í kringum jólin til að dvelja í nokkrar vikur í BNA.