Fyrstu sumardrögin

Það er frágengið að ég (Elli) verð að vinna fjórar vikur í Vatnaskógi í sumar. Þannig mun ég vera í skóginum 20.-26. júní, 4.-10. júlí, 18.-24. júlí og loks 29. júlí-7. ágúst. Ég kem til Íslands með börnin í einhvern tímann í vikunni fyrir 20. júní og ég geri ráð fyrir að við fljúgum aftur til BNA að morgni 8. ágúst.

Aftur í BNA

Þegar þetta er skrifað er ég kominn aftur til BNA eftir rúmlega tveggja vikna dvöl á Íslandi, þar sem ég hitti fjölmargt skemmtilegt fólk og það sem ekki er síður um vert, fékk F2 vegabréfsáritun hjá bandaríska sendiráðinu. Það hljómar reyndar næstum fáránlegt en viðtalið sem ég þurfti að fara í tók varla 2 mínútur, en starfsmaður sendiráðsins spurði hvernig konunni miðaði í náminu, og hvort ég hefði ekki verið í námi í BNA sjálfur. Ég svaraði báðum spurningum fremur ítarlega og útskýrði að ég hefði ætlað mér að starfa á OPT eftir námið en ekki fundið vinnu, en ég hafði samt á tilfinningunni að starfsmanninum væri næstum sama um það, enda sagði konan eitthvað á þá leið að það væri nú þegar búið að samþykkja umsóknina. Halda áfram að lesa: Aftur í BNA

Réttlaus

Þegar þessi færsla birtist, 26. október, er ég án réttarstöðu í Bandaríkjunum og rétt í þann mund að lenda á Toronto Pearson International Airport á leið til Íslands. Ég ákvað að taka saman á einn stað helstu upplýsingar um reynslu mína af landvistarreglum í BNA. Annars vegar fyrir sjálfan mig og hins vegar ef fjölskylda/vinir hefur áhuga á að setja sig inn í málið.

Þegar ég var nemi við Trinity Lutheran Seminary var ég með vegabréfsáritun sem heitir F-1. Slík áritun er gefin til erlendra nemenda við bandaríska skóla og byggir á tiltölulega einföldu ferli. Eftir að skólinn samþykkir nemanda, þá sendir skólinn nemandanum eyðublað sem heitir I-20, nemandinn tekur I-20 pappírana ásamt ýmsum öðrum gögnum í sendiráð BNA í heimalandi sínu og fær límmiða í vegabréfið.

Að námi loknu getur nemandi síðan fyllt út einfalt form, sent til stjórnvalda í BNA og fengið atvinnuleyfi til eins árs sem kallast OPT, en ég gerði það. Ég reyndar þurfti að fylla út formið 2-3 sinnum og endursenda það (enda flókið að fylla út rétt).

Það er ýmislegt merkilegt við OPT ferlið. Eitt sem er vert að nefna er að eftir að umsækjandi hefur sent in umsókn fyrir OPT og þar til hann/hún hefur fundið starf, er ekki gert ráð fyrir að viðkomandi ferðist frá Bandaríkjunum. Það að yfirgefa BNA áður en OPT-hafi hefur fengið starf getur verið túlkað af bandarískum stjórnvöldum sem ákvörðun um að draga umsókn um OPT til baka. Þetta merkti fyrir mig að ég gat ekki heimsótt Ísland frá því í lok febrúar og þangað til í dag, án þess að eiga á hættu að atvinnuleyfið mitt yrði afturkallað. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að krakkarnir komu ekki til Íslands í sumar, ég gat ekki farið með þau án þess að eiga á hættu að missa landvistar- og atvinnuleyfi. Ekki að það skipti máli núna, fyrst þetta fór svona svo sem.

26. júlí s.l. fékk ég síðan atvinnuleyfisskírteini með mynd af mér. Á skírteininu kemur skýrt fram að ég hef atvinnuleyfi í BNA frá 20. júlí 2010 og til 19. júlí 2011. Hins vegar var reglugerðum breytt í BNA 8. apríl 2008, á þann veg að ef handhafi OPT atvinnuleyfis er atvinnulaus í 90 daga, er atvinnuleyfið ógilt. Hér er rétt að nefna að ég gat ekki tekið hvaða starf sem er OPT atvinnuleyfið er mjög skilyrt og í mínu tilfelli þurfti ég að finna starf sem að

hjálpaði nemandanum að öðlast frekari reynslu á sviði safnaðarstarfs, starfi trúarhreyfinga og hlutverki leiðtoga í kirkjulegu samhengi, jafnframt því að tengja saman trúarlegar hefðir og guðfræðilega menntun. (þýtt af I-20 eyðublaðinu mínu)

Vinnan þurfti einnig að styðjast við menntun mína á meistarastigi. Ég sótti um níu störf á Columbus svæðinu, sem ég taldi að hentuðu mér vel, ég gæti lagt eitthvað gagnlegt fram og uppfylltu þessar kröfur. Ég gæti velt upp spurningum hvers vegna einstaklingar með minni menntun og styttri reynslu voru ítrekað ráðnir fram yfir mig, ég gæti talað um kirkjupólítík á bak við sumar ráðningarnar og kvartað undan virðingarleysi og óheiðarleika sem ég fann fyrir á sumum þeim stöðum þar sem ég sótti um (en alls ekki öllum, sumir unnu mjög faglega) en í raun skiptir það ekki mál. Staðreyndin er sú að ég fann ekki vinnustað sem hafði áhuga á að nýta sér hæfileika mína.

Svo þetta er staðan. Í dag er F-1 vegabréfsáritunin mín og atvinnuleyfið mitt fallið úr gildi. Ég vona að þetta sé þó ekki í síðasta skiptið sem ég verð í BNA. Konan mín klárar námið sitt við Ohio State University næsta vor og krakkarnir voru að hefja nýtt skólaár hér í Ohio. Ég fer á fund núna á fimmtudaginn í bandaríska sendiráðinu á Íslandi til að óska eftir vegabréfsáritun sem maki, svokallað F-2. Slík áritun gefur mér heimild til að dvelja með fjölskyldunni í BNA og ferðast um svo lengi sem konan mín er í námi. Hins vegar

er handhöfum F-2 áritunar ekki heimilt að starfa í BNA undir neinum kringumstæðum. Reglugerðir um áritanir kveða skýrt á um að handhafar F-2 áritunar, hafa ekki heimild til að stunda háskólanám eða taka námskeið sem gætu nýst til formlegrar prófgráðu. Handhafar F-2 áritunar geta þó tekið þátt í frístundastarfi og börn með F-2 áritun mega vera í grunnskólanámi. (þýtt af http://oie.osu.edu/international-students/f-2-and-j-2-dependents.html)

Þetta merkir að ég mætti spila knattspyrnu í BNA mér til ánægju sem handhafi F-2, en það er um það bil allt sem ég má. Það að spila sem vinstri miðherji í frístundastarfi er ekki mjög fjárhagslega gjöfult (og ef það væri það mætti ég það ekki), sem þýðir að þó það væri gaman að geta verið áfram í BNA, þá neyðist ég til að leita eftir vinnu á Íslandi.

Og þannig er það. Ég vona að þetta útskýri stöðuna í augnablikinu.

Breytingar á plani

Nú er orðið ljóst að ég næ ekki að klára ritgerðarskrif í STM-náminu á þessu misseri. Af þeim sökum ræddi ég við umsjónarkennarann minn, alþjóðafulltrúann og skráningarstjóra skólans míns í dag til að tilkynna þeim að ég gerði ráð fyrir að vera nemi á vormisseri. Ég var búin að hafa samband við LÍN og hef rétt á lánum fyrir einingar sem ég tek í vor. Þetta þýðir í sjálfu sér ekki annað en að í stað þess að ég reyni að finna vinnu hér úti frá mars 2010 (og með atvinnuleyfi til mars 2011), þá verð ég skráður í skólann fram í maí 2010, og fæ síðan atvinnuleyfi frá júní/júlí 2010 til júní/júlí 2011.

Ég mun taka tvo kúrsa á vormisserinu og verð þannig í tæplega 50% námi. Annar kúrsinn er þriggja vikna kúrs í janúar um safnaðarstarf og þjónustu. Fyrsta vika námskeiðsins verður í  Littleton Colorado, önnur vikan á Haiti í Karabíska hafinu og síðan verður lokavikan aftur í Colorado. Hitt námskeiðið er hefðbundnara, kennt í Biblíudeildinni við Trinity, með einum fyrirlestri í viku frá febrúar fram í maí, og fjallar um trúarlíf við Miðjarðarhafið á fyrstu og annarri öld eftir Krist, í ljósi skrifa Páls postula.

Bæði þessi námskeið hafa snertifleti við ritgerðina mína og ég vona að þau gefi skrifum mínum aukna dýpt. Vissulega var þetta ekki upphaflega planið, en sumarið nýttist ekki eins og ég ætlaði. Ég þurfti að taka einu námskeiði meira á haustmisseri en ég planaði vegna reglugerðar um erlenda stúdenta og þá hefur aðstoðarkennarahlutverkið tekið meiri tíma en ég gerði ráð fyrir og verður enn tímafrekara í nóvember og desember. En hvað um það, ég og umsjónarkennarinn vorum sammála um að ritgerðin yrði væntanlega betri fyrir vikið og það hlýtur að vera það sem skiptir mestu máli. 🙂

DJ vígður

Í gær leigði ég bílaleigubíl og hélt sem leið lá til Toledo, en borgin er upp við fylkjamörk Michigan og rétt um 240 km frá Columbus. Þannig var að DJ Dent samnemandi og -starfsmaður hjá Healthy Congregations var að vígjast til prests, en hann mun þjóna í lútherskri kirkju í Arcadia. En Arcadia er 537 manna bær í Ohio hálfa leið milli Columbus og Toledo. Ég lagði af stað rétt fyrir 8 að morgni og var kominn til Toledo ríflega 10, en vígslan var kl. 11. Að vígslu lokinni var síðan boðið upp á hádegisverð fyrir kirkjugesti, sem fólst í djúpsteiktum kjúkling og kartöflumús. Síðan var auðvitað skúffukaka í eftirrétt með amerísku smjörkremi.
Ég ákvað að nota tækifærið og fara í smáferðalag um Norður Ohio eftir matinn og keyrði sem leið lá eftir Route 2 eftir Erie vatninu og til Sandusky, en ég hafði heyrt að miðbær Sandusky væri mjög skemmtilegur. Þegar þangað var komið áttaði ég mig samt fljótlega á að Sandusky er sumarbær, enda fullur af skemmtigörðum sem loka yfir veturinn. Ég fann samt kaffihús sem var mjög skemmtilegt í miðbænum og sat þar í 1 klst, las yfir ritgerðir nemenda í Pastor as Leader, sem ég er aðstoðarkennari í og skrifaði athugasemdir og ábendingar. Ég ákvað síðan að halda heim á leið og keyrði Route 250, sem liggur á ská í gegnum dreifbýlið í Norður Ohio, niður að I71 hraðbrautinni milli Cleveland og Columbus. Það var augljóst hver var vinsælasti forsetaframbjóðandinn á þessu svæði, heimahöfn Joe the Plumber, en meðfram Route 250 voru alstaðar John McCain skylti, og ég hugsaði þegar ég keyrði fram hjá hreysum sem litu út fyrir að vera lítið stærri en hjólhýsi með gömlum þreyttum pick-up bílum, hvers vegna í ósköpunum þetta fólk styddi frambjóðanda sem heldur á lofti mikilvægi þess að lækka skatta þeirra ríkustu í landinu og draga úr aðgengi þeirra lægra launuðu að heilbrigðisþjónustu. En að sjálfsögðu stoppaði ég ekki og spurði enda hefur Obama svo sem svarað spurningunni, með hinni alræmdu athugasemd um „byssur og trúarafstöðu“.
Alla vega, það var áhugavert að aka í gegnum þetta svæði sem er svo óhugnanlega ólíkt borginni sem við búum í, á allan hátt, þrátt fyrir að vera sama fylki.

E.s. Við höfum bætt við myndum, m.a. frá Hrekkjavöku.

Allt að fara af stað (um námið hans Ella)

Nú er vetrarrútínan að hefjast hérna á heimilinu, en Anna byrjaði í skólanum í dag. Tómas er á öðrum degi í aðlögun á nýrri deild í leikskólanum en hann er að færast af Child Care yfir á Pre-K deild. Jenný er að vinna og læra og á morgun funda ég með trúfræðikennara út í skóla um leskúrs í kirkjufræðum (Ecclesiology) og má segja að þá byrji önnin mín, þó formlega byrji skólinn minn ekki fyrr en eftir helgi. Halda áfram að lesa: Allt að fara af stað (um námið hans Ella)

Góðmennið ég

Ég skrapp áðan út í Kroger, eins og ég geri stundum á kvöldin. Þegar ég var búin að fylla körfuna með vatni á flöskum og barnamat í krukkum fór ég eins og lög gera ráð fyrir að kassanum í búðinni. Það voru bara tveir kassar opnir og fremur löng röð við þá báða svo ég byrjaði að bíða. Halda áfram að lesa: Góðmennið ég

Gullna liðið vann

Í fyrsta skipti á þessu vori tókst Gullna liðinu í Bexley Old Boys/girls að sigra knattspyrnuleik. Það var þó ekki sársaukalaust fyrir mig, en ég lenti í því að togna illa á vinstra læri þegar ég var að skokka á eftir boltanum og fylgja því eftir að hann færi út af.
Ég ligg því núna í sófanum og bíð eftir að Jenný reddi matnum.